Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Íslenska þjóðin hefur mátt gjalda dýru verði stjórnarfarið eftir alþingiskosningarnar 1987. Í einhverju mesta góðæri sem þjóðin hefur lifað frá upphafi vega hefur gömlu flokkunum, Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl. og Alþb., nánast tekist að eyðileggja allt atvinnulíf landsmanna. Nú er svo komið að nær öll atvinnufyrirtæki þjóðarinnar, nema bankar og peningastofnanir, eru rekin með tapi. Borgaraflokkurinn spyr: Hvers konar stefna er það sem hefur leitt til þess að útflutningsframleiðslan, hvort sem er í sjávarútvegi eða iðnaði, stendur engan veginn undir sér og verður að vera í gjörgæslu hjá bankastofnunum eftir að allt eigið fé fyrirtækjanna er upp urið? Á hverju er þjóðinni ætlað að lifa? Er það virkilega skoðun manna að við getum lifað á því að selja hvert öðru verðbréf og alls kyns pappíra og hlaupa með innistæður milli banka eftir því sem vextir breytast?
    Borgaraflokkurinn telur að hluti af þeim mikla vanda sem steðjar að okkur mitt í góðærinu sé sú óraunsæisstefna sem hefur ríkt í peninga- og ríkisfjármálum. Gömlu flokkarnir hafa gersamlega misst tökin á rekstri ríkisins. Ríkið er orðið að ófreskju sem enginn ræður við. Ríkiskerfið kallar sífellt á aukinn mannafla og útgjöld vaxa stjórnlaust. Hvað ætlum við, 250 þús. Íslendingar, t.d. að reka marga háskóla? Þeir munu nú vera orðnir tíu talsins. Eða hversu mörg hátæknisjúkrahús sem ráða yfir fullkomnari og dýrari tækjabúnaði en öll sjúkrahúsin í stórborginni Los Angeles? Er nema von að ríkissjóður sé orðinn botnlaus hít sem krefst meiri og meiri skatta? Sífellt er verið að leita leiða til að finna upp nýja skatta og auka skattálögur. Bæði núv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og fráfarandi ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafa slegið öll met í skattálögum á fólkið og atvinnureksturinn í landinu. Sú síðarnefnda verður lengi í minnum höfð fyrir matarskattinn, eitt mesta pólitíska slys Íslandssögunnar. Borgaraflokkurinn vill stöðva þessa óheillaþróun.
    Efnahagsmál þjóðarinnar hafa verið í ólestri svo lengi sem ég man eftir mér. Umræðan á þingi og í kaffistofum landsmanna snýst ávallt um hið sama: Til hvaða ráða á nú að grípa til að koma málum í lag? E.t.v. viljum við hafa þetta svona. Þetta er kannski hluti af þjóðarsálinni. Þetta reddast einhvern veginn, segja flestir. Þegar ástandið er hins vegar orðið þannig að algert hrun virðist fram undan hjá heimilunum og fjölda atvinnufyrirtækja er e.t.v. rétt að staldra við og hugsa: Hvert stefnum við Íslendingar?
    Mitt í þessum hremmingum hefur þingið og þjóðin fundið sér eitt mikið deilumál, en það er húsbréfafrumvarp hæstv. félmrh. Það er annars einkennilegt að flest mál sem hæstv. félmrh. flytur í þinginu hafa þann eiginleika að út af þeim fer allt í bál og brand í þjóðfélaginu. Húsbréfamálið er þar engin undantekning. Þingið logar í deilum út af húsbréfunum. Hagsmunasamtök launþega og aðrir hagsmunahópar í þjóðfélaginu eru ýmist mjög andvígir frv. eða hefja það upp til skýjanna. Hæstv. ráðherrann

hótar að segja af sér og sprengja ríkisstjórnina nái málið ekki fram að ganga. Forkostuleg vinnubrögð svo að ekki sé meira sagt.
    Síðustu fréttir eru svo þær að málið sé nú komið á einn allsherjarprúttmarkað. Kvennalistinn vill kaupa fyrir 600 millj. hér og nefnd hvar án þess að hafa frekari áhyggjur af sjálfu húsbréfafrumvarpinu. Samtök um jafnrétti og félagshyggju vilja kaupa ef aðeins þeir sem eru að kaupa eða byggja sína þriðju eða fjórðu íbúð lenda í húsbréfakerfinu. Þetta er hið versta mál eins og Ragnar Reykás segir.
    Það þýðir einfaldlega ekki að ætla að gjörbreyta húsnæðislöggjöfinni í andstöðu við stærstu launþegasamtök landsins. Allar slíkar breytingar verða að gerast með víðtæku samkomulagi þeirra aðila sem málið varðar. Því hlýtur að vera skynsamlegt að vísa málinu til endurskoðunar og frekari athugunar í samráði við aðila vinnumarkaðarins og leggja það svo fram aftur í haust.
    En hvað eru svokölluð húsbréf? Við þm. Borgaraflokksins berum mikla ábyrgð á þessari umræðu og þeim tillögum sem hafa verið lagðar fram um fjármögnun húsnæðislána með húsbréfum. Haustið 1987 lögðum við fram viðamikið frv. um sérstakar húsnæðislánastofnanir sem fjármögnuðu húsnæðislán með útgáfu á söluhæfum húsbréfum að danskri fyrirmynd. Þar kom m.a. fram í fyrsta sinn hugtakið ,,húsbréf`` sem þýðing á danska orðinu ,,boligobligation``.
    Sem 1. flm. lagði ég mikla vinnu í undirbúning að frv. og fór m.a. í sérstaka ferð til Kaupmannahafnar til að afla mér upplýsinga. Þar heimsótti ég m.a. stærstu húsnæðislánastofnun Danmerkur, Kreditforeningen Danmark, og fékk mjög greinargóðar upplýsingar um danska húsbréfakerfið. Danska húsnæðislánakerfið er talið eitt hagstæðasta og öflugasta húsnæðislánakerfi Evrópu. Biðtími eftir lánum er oft innan við eina viku, þ.e. lánsumsókn sem berst fyrir hádegi á mánudegi er yfirleitt afgreidd til útborgunar á föstudegi í sömu viku. Kerfið er svo öflugt að það getur annað miklu fleirum en Dönum sjálfum. Þannig bjóða danskar húsnæðislánastofnanir húsnæðislán til Þýskalands, Portúgal og til Wales. Þeir dönsku sérfræðingar sem ég átti viðræður við töldu það reyndar vel geta komið til greina að bjóða dönsk
húsbréfalán á Íslandi í samvinnu við íslenskar húsnæðislánastofnanir og lýstu sig reiðubúna til að hjálpa okkur við að koma slíku húsnæðislánakerfi á fót á Íslandi.
    Við erum því að sjálfsögðu hlynntir að reyna að fjármagna húsnæðislán með húsbréfum, enda vorum við fyrstir til að benda á þessa leið. Það er hins vegar ekki sama hvernig að þessu er staðið. Íslenskt húsbréfakerfi verður að vera þaulundirbúið og í fullu samræmi við þær grundvallarreglur sem gilda um fjármögnun húsnæðislána með húsbréfum. Sú útfærsla á húsbréfakerfinu sem nú liggur fyrir er meingölluð og brýtur í bága við nokkur grundvallaratriði þess húsbréfakerfis sem nágrannalöndin hafa byggt á um margra áratuga skeið. Samkvæmt upplýsingum sem ég

hef aflað frá dönskum sérfræðingum telja þeir að með þeirri útfærslu sem hæstv. félmrh. leggur til sé hætta á mikilli verðbólgusprengingu og að verð fasteigna muni hækka verulega. Satt best að segja óttast ég þetta einnig, einkum þegar ég horfi á fulltrúa verðbréfafyrirtækja og fasteignasala mala eins og kettir sem hafa fengið rjóma í skál þegar húsbréfafrumvarpið ber á góma.
    Þá eru dönsku sérfræðingarnir sammála okkur um það atriði að ríkið á ekki að hafa forgöngu um að reka húsbréfakerfið. Þeir fórna höndum yfir þeirri hugmynd að hafa húsbréfin með ríkisábyrgð og tala um jafngildi seðlaprentunar eins og reyndar fleiri gagnrýnendur hér á landi. Við viljum að lífeyrissjóðirnir í landinu taki að sér þetta verkefni í samvinnu við launþegasamtökin, banka og tryggingafélög en ekki ríkið. Húsnæðisstofnun ríkisins á að einbeita sér að því meginverkefni að sinna húsnæðisvandamálum lágtekjufólksins, öryrkja og aldraðra og veita almenna ráðgjöf. Eins á stofnunin að veita öllum sem eru að kaupa eða byggja sína fyrstu íbúð hagstæð lán með niðurgreiddum vöxtum. Allir aðrir geta sætt sig við húsnæðislán með venjulegum markaðsvöxtum.
    Þá vantar bremsurnar í kerfið. Í nágrannalöndunum er það grundvallaratriði að kaupandi eða seljandi verður að sækja um húsbréfalán. Lánsumsóknin er síðan tekin til afgreiðslu. Ef það er þensla á fasteignamarkaði eða húsbréfin seljast illa er hægt að hægja á útgáfu þeirra í takt við afgreiðslu lánsumsókna. Eins og húsbréfakerfið er skilgreint samkvæmt frv. hleypur seljandinn með eitthvert staðlað fasteignaskuldabréf undirritað af kaupanda upp í Húsnæðisstofnun strax eftir söluna og fær bunka af húsbréfum í staðinn. Hvorki hann né kaupandinn þurfa að sækja um afgreiðslu. Kerfið er hömlulaust. Fyrirtæki geta t.d. látið hlutahafana selja hver öðrum íbúðir sínar til að útvega fjármagn. Þetta einfaldlega gengur ekki. Því verður að laga frv. og breyta því. Það má ekki eyðileggja hina annars ágætu hugmynd um húsbréfalán með flaustri og flumbrugangi. Annars ætti okkur ekki að vera ofviða að leysa húsnæðisvandamál þjóðarinnar á tiltölulega auðveldan hátt. Við erum rík þjóð og ættum ekki að þurfa að búa við meiri húsnæðisvanda en nágrannaþjóðir okkar sem hafa að mestu leyti leyst hann.
    Við notum um 14 milljarða kr. til húsnæðislána á einu ári. Hvernig væri að taka hluta þeirrar upphæðar, t.d. 3--5 milljarða kr. árlega, og leysa á 2--3 árum húsnæðisvanda lágtekjuhópa og öryrkja? Hvernig væri að gera stórátak í líkingu við byggingu Breiðholtsíbúðanna á sínum tíma? Byggja 3000 íbúðir af meðalstærð um land allt á næstu þrem árum í samvinnu Húsnæðisstofnunar, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka launþega, öryrkja, námsmanna og aldraðra? Þetta er ekki eins stórt vandamál og menn vilja vera láta.
    Þá langar mig til að víkja að enn einu atriði í húsnæðismálum okkar en það eru sjálf húsnæðislánin. Í tillögum okkar borgaraflokksmanna kom fram með

hvaða hætti væri hægt að gera lánin sjálf aðgengilegri og léttbærari fyrir launafólk með breyttum lánskjörum. Þannig bentum við á lán með afkomutryggingu samkvæmt amerískri fyrirmynd. Það gerist með þeim hætti að húsnæðislánastofnanir í samvinnu við líftryggingafélög bjóða lán þar sem lántakinn er afkomutryggður. Ef greiðslugeta lántakandans minnkar vegna atvinnumissis, heilsutjóns, fráfalls maka eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum, greiðir tryggingafélagið mismuninn á greiðslubyrði og greiðsluþoli hans. Hópur þess fólks sem lendir í greiðsluerfiðleikum vegna húsnæðislána fer sívaxandi og greiðsluerfiðleikadeild Húsnæðisstofnunar hefur hvergi undan. Hefði ekki verið nær að taka á þessu vandamáli?
    Þessi mál svo og önnur vandamál, svo sem hinar illvígu kjaradeilur, verðum við að sameinast um að leysa án tillits til flokkadrátta og hagsmunahópa. Best væri nú að gera kjarasátt sem tryggir viðunandi kaupmáttarstig lágtekjuhópanna án beinna krónutöluhækkana. Nýgerðir kjarasamningar við opinbera starfsmenn kunna að torvelda þessa leið en sjálfsagt er að reyna hana til þrautar engu að síður. Þessa kjarasátt á að gera með beinum og óbeinum skattalækkunum, með því að fella niður matarskattinn, hækka skattleysismörk hjá lágtekjuhópum og koma í veg fyrir frekari skerðingu kaupmáttar hjá barnafjölskyldum og gamla fólkinu með öðrum mildandi skattaaðgerðum. Þetta verður að gerast í tengslum við nauðsynlega breytingu á gengi íslensku krónunnar svo útflutningsfyrirtækin og fyrirtækin í samkeppnisiðnaði fari að skila hagnaði. Afkoma fólksins skiptir meginmáli svo og afkoma fyrirtækjanna. Afkoma ríkissjóðs hlýtur að vera í
þriðja sæti á forgangslistanum enda hag ríkissjóðs best borgið þegar fólkinu og fyrirtækjunum vegnar vel.
    Á þeim stutta tíma sem við þingmenn Borgfl. höfum setið á þingi höfum við komið fram með ótal nýstárlegar hugmyndir og bent á nýjar leiðir í efnahags- og þjóðmálum. Við fögnum því að sumar þessara hugmynda, til að mynda húsbréfin, eru farnar að síast inn í gömlu flokkana. Það má öllum vera ljóst að gömlu stjórnmálaflokkarnir eru steingeldir og vantar allan sköpunarkraft. Hagsmunagæslan, kjördæmapotið og valdabaráttan drepur hvern vott af frjórri hugsun. Því er orðið lífsspursmál að nýjar stjórnmálahreyfingar nái öruggri fótfestu í íslenskum stjórnmálum. Annars hjökkum við áfram í sama farinu og búum við endalausa umræðu og kjaftæði um efnahagsvandamál þjóðarinnar.
    Ég ætla að biðja ykkur, landsmenn góðir, sem hlýðið á mál mitt að hugleiða þetta. Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars.