Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það hefur verið um margt athygli vert að hlusta á varnarræður talsmanna stjórnarflokkanna hér í kvöld.
    Formaður Alþfl. sté hér í stólinn og fann ekki annað ráð sjálfum sér til upplyftingar en hefja hér persónulegra og lágkúrulegra hnútukast en fram hefur farið í sölum Alþingis árum saman. Ræða hans er auðvitað ekki svara verð nema kannski ef við lítum fáein augnablik á frjálshyggjugrýluna sem hann dró hér upp, frjálshyggjugrýlu sem hann sagði að fælist í vaxtaákvæðum bankalaganna. Og hann gaf til kynna eins og aðrir að allt það sem misfarist hefur væri ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar að kenna.
    En hvaða ríkisstjórn setti þessi bankalög? Það var fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Og þessi bankalög voru samþykkt með atkvæðum Alþfl. og þeim var framfylgt í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar af viðskrh. Alþfl. og hann er enn að reyna að rembast að halda því fram að bankalögin séu enn óbreytt. Þetta er nú öll frjálshyggjugrýlan.
    Og það var fróðlegt að hlusta hér á varnarræðu hæstv. forsrh. Hann sagði að það hefði valdið stjórnarslitunum við Sjálfstfl. að Sjálfstfl. neitaði að lækka laun fiskvinnslufólksins í landinu um 10%. Að sjálfsögðu neitaði Sjálfstfl. að lækka laun fiskvinnslufólksins um 10% með lögum. En nokkrum mínútum síðar í ræðu sinni sagði forsrh.: Nýja ríkisstjórnin hafnaði gengisbreytingu og kjaraskerðingum --- nokkrum mínútum eftir að stjórnarslitin áttu sér stað vegna þess að Sjálfstfl. vildi ekki fallast á 10% launalækkun. Og nokkrum mínútum síðar hélt hann að áheyrendur væru búnir að gleyma og sagði að nýja ríkisstjórnin hefði ekki sætt sig við hið háa gengi ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Þannig rekur hvað sig á annars horn. Og það er von þegar röksemdafærslan er svona á reiki að stefnumörkunin sé líka reikul.
    Það er kynlegt að gagnrýna ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar fyrir of hátt gengi í einni setningunni, en í hinni setningunni fyrir að hafa viljað fara gengiskollsteypur. Menn sem svona tala eru ekki trúverðugir og það er von að árangur verka þeirra sé með þeim hætti sem raun ber vitni um. Og ég skildi það þegar forsrh. sagði söguna frá Færeyjum að sagnaritarar þar í landi hafa greinilega heyrt af stjórnmálamanninum Steingrími Hermannssyni.
    Og formaður Alþb., sá sem hefur tögl og hagldir í þessari ríkisstjórn, sté hér í ræðustólinn. Hann sá ekkert nema bleika akra og slegin tún. Það var sú heimsmynd sem við honum blasti. En hann hafði ekki fyrr lokið máli sínu hér en formaður þingflokks Alþb., Margrét Frímannsdóttir, sté hér í ræðustólinn. Eftir einn vetur vinstri stjórnar sá hún ekki bleika akra og slegin tún. Fyrir hennar augum voru kalin tún eftir einn vetur vinstri stjórnar undir forustu Ólafs Ragnars Grímssonar. Einmitt þetta er dæmigert fyrir málflutning stjórnarliðsins. Forustumenn stjórnarflokkanna lifa í eins konar draumaheimi eilífrar sælu og mikillar og góðrar sambúðar. Þeir skynja ekki

veruleikann í kringum sig. En stjórnarþingmennirnir, jafnvel þingflokksformennirnir og höfuðpaur ríkisstjórnarinnar, Stefán Valgeirsson, skilja að það er sviðin jörð eftir þessa ríkisstjórn. Þeir skilja að vandi atvinnuveganna í dag er mikill, að það er hallarekstur á höfuðútflutningsgreinunum og að Þjóðhagsstofnun spáir því nú að hallinn verði tvöfalt meiri en hann var sl. haust ef fram verður haldið stefnu núv. fjmrh., þeirri stefnu sem byggist á þeirri trú að verðmætin í þessu landi verði til með auknum ríkisumsvifum og auknum sköttum á einstaklinga og atvinnufyrirtæki, þeirri stefnu sem byggist á þeim hroka gagnvart atvinnufyrirtækjunum og launafólkinu sem starfar hjá þeim sem fjmrh. hefur sýnt á undanförnum dögum.
    Verðbólgan heldur áfram. Vextirnir hafa ekki lækkað, raunvextir að vísu örlítið vegna þess að spariskírteini ríkissjóðs seljast ekki. Sú staðreynd er fyrst og fremst til vitnis um það að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar hefur beðið skipbrot. Ríkisstjórnin tvöfaldaði erlendar lántökur í meðferð lánsfjárlagafrumvarpsins hér á Alþingi. Og það er ágreiningur í ríkisstjórninni um höfuðþætti utanríkisstefnunnar, varnarsamstarfið við lýðræðisþjóðirnar, og tveir flokkar stjórnarinnar reka fyrirvarapólitík gagnvart efnahagssamvinnu Norðurlandaþjóðanna og samþykktum fríverslunarsamtakanna í mikilvægum viðræðum við Evrópubandalagið, fyrirvarapólitík sem rýrir traust okkar og álit á erlendum vettvangi og getur dregið úr möguleikum okkar til þess að ná góðum og hagstæðum samningum við Evrópubandalagið.
    Það eru nýir tímar. Það blása nýir vindar í Evrópu. Evrópuþjóðirnar eru staðráðnar í því á grundvelli frjálslyndra viðhorfa í efnahags- og atvinnumálum að stíga ný skref til framfara í trú á það að þannig megi bæta lífskjör fólksins. En á sama tíma og þetta er að gerast er hjólinu snúið við hér uppi á Íslandi. Undir forustu Alþb. eru innleiddar hér nýjar aðferðir miðstýringar, hafta, uppbóta og nýrra sjóða fyrir stjórnmálamenn til þess að útdeila úr. Þetta er ekki leið til framfara. Þetta er ekki leið til þess að bæta lífskjörin í landinu. Við þurfum að breyta um stjórnarstefnu. Og það er auðvitað ágreiningur í íslenskum stjórnmálum þar um.
    Sjálfstfl. boðar við þessar aðstæður frjálslynda stefnu þar sem einstaklingurinn er í fyrirrúmi, hvort sem við horfum á atvinnufyrirtækin, til starfsfólksins í atvinnulífinu eða heimilanna í landinu. Þetta er stefna sem við berum fram gegn stefnu Alþb. sem nú er allsráðandi í þeirri vinstri stjórn sem situr og hefur leitt til þeirrar niðurstöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag. Sjálfstfl. lagði til í fyrrv. ríkisstjórn að gripið yrði á haustdögum eftir langvarandi ytri áföll til nýrra aðgerða til þess að treysta atvinnuvegi landsmanna. Við lögðum til 6% gengisbreytingu, það kalla þeir nú holskeflu gengislækkunar, ásamt með ýmiss konar hliðarráðstöfunum, þar á meðal lækkun skatts á matvæli. Hver voru viðbrögð Framsfl. og Alþfl. við þessum tillögum sem hefðu komið rekstri sjávarútvegsins og útflutningsframleiðslunnar upp á

núllpunkt? Þeir kröfðust þess að þessar tillögur yrðu dregnar til baka og á þeim tímapunkti var ljóst að Sjálfstfl. átti ekki lengur samleið með Alþfl. og Framsfl. Þeir kusu að ganga til fylgilags við Alþb. Þeir fengu það tækifæri og reynslan dæmir í dag. Reynslan sýnir hver árangur varð af því. Og ég hygg, vegna þess að allir verða að njóta sannmælis, að jafnvel forustumenn Alþfl. og Framsfl. viðurkenni með sjálfum sér, innra með sér, að það hefði verið skynsamlegra að ganga að þessum tillögum sl. haust en fara inn á þá braut sem Alþb. hefur markað með þeim afleiðingum fyrir íslenskt atvinnulíf sem þjóðin veit og þjóðin skilur og þingmenn stjórnarliðsins skilja. Þeir eru að vísu of stoltir til þess að viðurkenna þetta enn, en að því kemur. Við eigum að hefja íslenskt þjóðfélag upp úr þessum skotgröfum vinstri stjórnar, færa það inn á framfarabraut frjálslyndis og umbóta og á þann veg gefa þjóðinni von á ný um betri tíð, gefa henni ástæðu til bjartsýni og áræðis. --- Góðar stundir.