Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Sem betur fer rúmast fleira innan ramma stjórnmálanna en ágreiningur um hagtölur og vísitölur. Íslensk stjórnmál hafa öðru fremur mótast af umræðu um efnahagsmál og er mér nær að halda að flestir Íslendingar hafi fengið sig fullsadda af henni. Ekki dreg ég í efa nauðsyn skynsamlegra skoðanaskipta um hagstjórnaraðferðir og hagstjórnartæki en svo mikil steintröll megum við ekki verða í heimi hagstjórnarinnar að við gleymum manninum sjálfum, þörfum hans fyrir önnur verðmæti en telja má í krónum, umhverfi hans og þeim hættum er steðja að grundvallarlífshagsmunum og lífsafkomu.
    Á undanförnum missirum og árum höfum við Íslendingar verið óþyrmilega á það minntir að umhverfisslys og mengun virða engin landamæri. Sú trygging sem fylgt hefur einangrun eyþjóðar í miðju Norður-Atlantshafi er löngu úr sögunni. Vandinn sem nú blasir við í umhverfismálum er alþjóðlegur og við getum ekki og megum ekki loka augunum í þeirri von og trú að einhver óútskýranlegur verndarkraftur fæli frá okkur kjarnorkuvá, eiturefnamengun og hvers konar umhverfisspjöll og komi í veg fyrir að við verðum fyrir áhrifum vegna eyðingar regnskóga í Brasilíu, skemmda á ósonlaginu og heimskulegrar umgengni mannsins við náttúruna. Öll þessi stórfelldu umhverfisslys munu hafa áhrif hér eins og annars staðar og við verðum að taka þátt í þeirri alþjóðlegu baráttu sem nú er hafin til að stöðva og draga úr afleiðingum skemmdarverkanna.
    Ef grannt er skoðað kemur í ljós að flest umhverfisslysin verða vegna hamslausrar samkeppni á sviði tækniþróunar, kröfunnar um meiri framleiðni, meiri veraldleg gæði, hraðari framþróun. Ekki hefur vopnaskak stórveldanna dregið úr hættunni. Kafbátsslysið suðvestur af Bjarnarey var dýrkeypt áminning og viðvörun. Það er ekki úr vegi að geta þess að Sovétmenn eiga nú 627 kjarnorkuknúin herskip og Bandaríkjamenn 276. Um borð í herskipum Bandaríkjanna, Sovétríkjanna, Bretlands, Frakklands og Kína eru tæplega 15.800 eldflaugar með kjarnaoddum. Um það bil þriðjungur allra kjarnorkuvopna í heiminum er í herskipum stórveldanna og nær 500 af þeim 900 kjarnakljúfum sem til eru í heiminum eru notaðir til að knýja herskip þeirra. Fjöldi þessara skipa er daglega á ferð um höfin umhverfis Ísland knúin kjarnorku og hlaðin kjarnorkuvopnum. Það er því fagnaðarefni að utanrrh. skuli nú ætla að beita sér fyrir umræðum innan Atlantshafsbandalagsins um afvopnun á höfunum.
    En fleira þarf að koma til. Eiturefnum af ýmsu tagi er kastað í hafið, Norður-Atlantshafið, og þau brennd á hafi úti. Hugmyndir eru uppi um að koma fyrir geislavirkum úrgangi á hafsbotni. Norður-Atlantshaf hefur um áratuga skeið verið notað eins og ruslafata fyrir hættuleg efni sem menn ekki vilja urða eða grafa á landi.
    Á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í sumar fékk ég samþykkta tillögu þar sem því er beint til

ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands að komið verði á fót sameiginlegri skrifstofu eða stofnun sem fylgist með mengun Norður-Atlantshafsins og geri ráðstafanir til að koma í veg fyrir hana. Hugmyndin er sú að öllum þjóðum sem eiga land að þessu mikla hafsvæði verði boðin aðild að þessari stofnun. Mjög er brýnt að hefja þetta starf þegar í stað og jafnframt að hefja samstarf við alla þá aðila sem vinna að sameiginlegum hagsmunamálum á þessu sviði. Það er illt verk að hrinda þeim sumum frá sér og klína á þá neikvæðum nafngiftum.
    En lítum okkur nær. Við höfum verið stolt af því að búa í landi ómengaðrar náttúru og að njóta bæði hreins vatns og lofts. Í þessu felast ómetanleg verðmæti. En því miður fölnar þessi mynd nokkuð þegar við gaumgæfum umhverfi okkar, hvers konar úrgang ber fyrir augu daglega, plast, einnota umbúðir og frárennslismengun við borg og bæi. Við höfum ekki orðið fyrir tjóni á landi af súru regni eða eiturefnum frá efnaiðnaði. Okkar meginvandi er eyðing gróðurþekjunnar á landinu. Að því leytinu búum við ekki við óspillta náttúru. Maðurinn, búfénaðurinn og náttúruöflin hafa eytt svo gróðurlendi Íslands að stór landsvæði sem áður voru gróin grasi og skógi eru nú eyðimörk. Þegar tekið er tillit ti beinnar gróður- og jarðvegseyðingar sem orðið hefur á 1100 árum Íslandsbyggðar og rýrnunar þess gróðurlendis sem eftir er lætur nærri að við Íslendingar búum við minna en 20% af þeim landgæðum eins og talið er að þau hafi verið við landnám. Sumir hafa gengið svo langt að segja að Ísland sé í gróðurfarslegum tötrum.
    Af þessari upptalningu má sjá að við höfum mikið verk að vinna. Þeir sem hugleiða hvernig sá heimur muni líta út sem við ætlum afkomendum okkar að taka við gera sér ljóst að hér er um svo risavaxið verkefni að ræða að öll önnur vandamál hljóta í raun að hverfa í skuggann. Í þessum hugleiðingum mínum felst spurningin um lífsafkomu þjóðar okkar, heilsu eða jafnvel líf og dauða þeirra sem jörðina byggja. Flest annað verður óttalegt hjóm í þeim samanburði.
    Núverandi ríkisstjórn hefur gengið rösklega til verks í umhverfismálum og borið fram fleiri og stærri mál á þeim vettvangi en aðrar ríkisstjórnir. Sérstaklega ber að nefna frv. til laga um umhverfismál, um nýtt umhverfismálaráðuneyti, tillögu um aðild að milliríkjasáttmála um takmörkun á
notkun ósoneyðandi efna, frv. um skilagjald á drykkjarvöruumbúðir sem stuðla megi að hreinsun áldósa og hvers konar einnota umbúða, frv. um meðferð brotamálma og skilagjald af ökutækjum sem stuðlar að söfnun brotamálma og bílhræja og hugmyndir um hvers konar endurnýtingu úrgangsefna. Nefna má frv. um landgræðslu og gróðurvernd og vörsluskyldu búfjár og í undirbúningi eru aðgerðir til að draga úr mengun sjávar. Í utanrrn. eru nú gerðar skipulagsbreytingar sem stefna m.a. að því að betur megi vinna að afvopnun á höfunum og gegn mengun sjávar.

    Síðasta flokksþing Alþfl. snerist að verulegu leyti um umhverfismál og þar var samþykkt skorinorð ályktun um þennan mikilvæga málaflokk. Ráðherrar flokksins hafa starfað rösklega og mjög í anda þessarar ályktunar.
    Virðulegi forseti. Við deilum og munum deila um efnahagsmál og leiðir að einhverju tilteknu marki eða að hinu gullna hliði óskalandsins. En ef við ekki sameinumst um megináherslur í umhverfismálum, mengunarvörnum og afvopnun á höfunum verður ekki um neitt að deila í framtíðinni. Umhverfismálin eru veigamesti málaflokkur líðandi stundar og næstu framtíðar. Hvernig þar tekst til getur ráðið úrslitum um framtíð þessarar þjóðar. --- Lifið heil.