Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Á eldhúsdegi líta menn um farinn veg og meta aðstæður í nútíðinni um leið og reynt er að skyggnast undir fortjald næstu framtíðar. Óvíst er hvort sviptingameira ár hafi runnið sitt skeið í stjórnmálum hér á landi frá eldhúsdegi í maíbyrjun á sl. ári til dagsins í dag. Gengisfall gjaldmiðils okkar eða gengissig mun hafa numið um 30% frá upphafi sl. árs. Nær hvarvetna sem borið er niður í þjóðfélaginu blasa erfiðleikar við, sums staðar að því er virðist óyfirstíganlegir. Hver ætli ástæða þessa sé?
    Óumdeilt er að við búum í gjöfulu landi hvort sem litið er til framleiðsluvara á sviði landbúnaðar eða sjávarútvegs. Iðnaður Íslendinga er á marga lund vel á veg kominn og nú munu um 16,5% vinnumarkaðarins hafa atvinnutekjur sínar af þeirri grein og raunar um 25% vinnufærra landsmanna ef fiskiðnaðinum er bætt við. Við sækjum fram á fjölmörgum sviðum verslunar og viðskipta og koma 16,8% atvinnutekna landsmanna úr þeirri grein, enda eru þar ógrynni ónýttra möguleika, ekki síst í utanríkisviðskiptum okkar sem vitaskuld hvíla á gæðum lands og sjávar. Langstærsti atvinnuhópurinn hér á landi er þó á sviði hvers konar þjónustu eða um 31% launþega í landinu. Þetta einkenni er sambærilegt við flest nágrannalöndin og sýnir í rauninni að þjóðfélagsþróun hér á landi er með svipuðum hætti og í næsta nágrenni okkar. En hvers vegna eigum við erfiðara með að hafa hemil á efnahagsþróuninni en nágrannalöndin? Hvað veldur?
    Trú mín er sú að einhæfni útflutningsframleiðslunnar valdi hér verulega um, eða réttara sagt hve háð við erum sveiflum í einni undirstöðuatvinnugrein, þ.e. sjávarútveginum. Þessu megineinkenni í íslenskum þjóðarbúskap verður ekki breytt svo að neinu nemi. Þess vegna er mikilvægt að menn læri að lifa við þessa grundvallarstaðreynd og viðurkenni hana í reynd.
    Uppsveifluskeiðinu í sjávarútvegi 1984--1987 var að ljúka rétt í þann mund sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar tók við völdum. Örlög þeirrar stjórnar voru að halda allfast í fastgengisstefnu en láta þó hrekjast af þeirri leið en ætíð of seint þannig að hún hafði fráleitt stjórn á því meginverki sem hún tók að sér, enda voru það fyrst og fremst hennar verk að skilja við sjávarútveginn og fiskvinnsluna nánast í rúst. Þannig voru fyrirtæki víða um land sem skilað höfðu hagnaði allt fram á haustið 1987, mörg hver burðarásinn í sínu byggðarlagi, komin í bullandi hallarekstur undir árslokin og síðan komin í algert þrot síðsumars 1988 þegar ríkisstjórnin hrökklaðist frá vegna innri ágreinings. Ósanngjarnt væri að halda því fram að hér hefði að mestu valdið óeirð á vinnumarkaði eða óbilgirni í kaupkröfum launþega. Nánast allt atvinnulíf í landinu er tengt þessum átökum um grundvallarstefnu í rekstri sjávarútvegsins sem ég tæpi hér á. Skipulögð aðför að hefðbundnum landbúnaði gekk vitaskuld fram með sama hætti og áður án þess að markaðsmálum eða skipulagi

nýbúgreina væru gerð þau skil sem skyldi.
    Jafnframt því að reka þessi mál í svo rækilegan hnút afrekaði þessi ríkisstjórn ýmislegt fleira sem í minnum mun haft. Hún lögleiddi matarskattinn og hækkaði þar með sumar af rekstrarvörum heimilanna um 25% og sneiddi af vaxtarbroddinn í einni af þýðingarmestu atvinnugrein landsmanna, ferðaþjónustunni. Allt var þetta gert í þeim bláeyga tilgangi að bæta innheimtu söluskattsins. Niðurstaðan varð hins vegar sú að aldrei, allar götur frá því að sú skattaaðferð var upp tekin hér á landi í upphafi viðreisnar, hefur innheimta söluskatts gengið jafnilla og vanskil verið jafnhrikaleg.
    Tvennt eiga þær sameiginlegt núv. hæstv. ríkisstjórn og sú hæstv. sem rann sitt skeið á enda í septemberlok sl. Sú fyrri beitti þeirri stjórnunaraðferð að losa sig við þingið á lokadaginn í fyrra, 11. maí, og gefa síðan út bráðabirgðalög fáum vikum síðar rétt eins og öllu venjulegu fólki bauð raunar í grun við þinglausnir að verða mundi. Engan grunaði þó hve haldlítil sú löggjöf reyndist. Sú seinni tók þessa stjórnunaraðferð svo berlega í arf að hún lét verða sitt fyrsta verk að gefa út bráðabirgðalög örfáum dögum fyrir þingbyrjun. Að vísu var henni sú vorkunn að flest stefndi í strand við sjávarsíðuna en hennar hlutur var að því leyti bíræfnari að meirihlutafylgis naut hún ekki í Nd. Alþingis.
    Nú er það vitaskuld öllum ljóst að hlutverk stjórnarandstöðu er fyrst og fremst að veita aðhald, gagnrýna á rökstuddan hátt og til þess hefur hún auðvitað þeim mun meiri möguleika sem styrkur hennar er meiri og hann getur tæpast orðið öllu styrkari en hér hefur verið í vetur. Bráðabirgðalög núv. hæstv. ríkisstjórnar voru lögð fyrir Ed. þar sem stjórnarsinnar njóta meirihlutafylgis. Þar var reynt á samvinnu stjórnarandstöðuflokkanna um að knýja fram breytingar á lögunum sem væntanlega yrðu til bóta. Það náðist ekki fram á því stigi máls en hins vegar fæddust í þeirri umræðu ýmsar hugmyndir, svo sem um hlutafjársjóð og það að bæta Atvinnuleysistryggingasjóði upp það tap er hann varð fyrir vegna bráðabirgðalaganna. Þessar hugmyndir, þótt breyttar yrðu að ýmsu leyti, náðu síðan fram í frekari vinnslu þessa máls í fjh.- og viðskn. Nd. og urðu síðan til þess að bráðabirgðalögin voru á þann
veg samþykkt við 2. umr. í Nd. með tilstyrk núverandi stjórnarliða og tveggja þm. Borgaraflokksins eftir meirihlutaákvörðun í þeim þingflokki. Yngsta aflið í þinginu sýndi þar með þann styrk sem réði úrslitum um framvinduna og hafa mun ómæld áhrif um allt land.
    Fyrirtækin sem versta útreið fengu í stjórnleysi fyrrv. hæstv. ríkisstjórnar eiga sum hver enn von. Eingöngu fyrir tilkomu hlutafjársjóðsins sem varð til með þeim hætti sem ég áðan greindi. Þessi lausn hefur síðan, bæði hér á þingi sem og annars staðar meðal stuðningsmanna fyrri stjórnar, fengið mjög neikvæða umfjöllun. En e.t.v. hefur það farið fram hjá þjóðinni að öll núverandi stjórnarandstaða í Nd. utan aðeins einn þm. sat hjá við atkvæðagreiðslu eftir 3.

umr. málsins. Meginatriðið er það að rekstrarhruni sjávarútvegsins um allt land var bægt frá um sinn a.m.k. Þeir sem standa í þeim rekstri og þeir sem hafa lífsviðurværi sitt í þessari undirstöðuatvinnugrein skilja hvað hér var um að tefla.
    Nú dregur að lokum þessa þings. Vinnudeilur setja mark sitt á þjóðlífið þessi dægrin enda þótt tekist hafi að ná viðunandi samningum við hluta vinnumarkaðarins. Eftir stendur að rekstrargrundvelli undirstöðuatvinnuveganna er enn teflt á tæpasta vað. Eina færa leiðin út úr ógöngunum er að ríkisvaldið greiði fyrir lausn með því að beita sér fyrir lækkun kostnaðar á sem flestum sviðum með því að afnema matarsköttun það sem eftir lifir þessa árs, með því að draga úr fjármagnskostnaði og með því að treysta svo afkomu sjávarútvegsins að hann geti gegnt hlutverki sínu með eðlilegum hætti. Eins og fyrri daginn hvílir flestöll önnur velferð á því að þetta takist. En það gefur auga leið að ríkisstjórn sem ekki nýtur stuðnings meiri hluta í báðum deildum þingsins á hér óhæga leið, svo óhæga að hætt er við að svo reyni á þolrif hennar innan frá að hennar bíði sömu örlög og þeirrar fyrri og það fyrr en varir.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég þakka þeim sem hlýddu og ég óska landsmönnum öllum gæfuríks sumars og bÝð góða nótt.