Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það eru tæplega fjórir klukkutímar síðan þessi umræða hófst. Hingað í stólinn hafa komið fjölmargir ræðumenn með heimastílana sína og flutt þá fyrir þjóðinni af mikilli lagni og lagt mikla vinnu í þessa texta og er það vissulega þakkarvert. Hitt kann að orka tvímælis hvort umræða af því tagi sem hér er skipulögð er nákvæmlega besta aðferðin fyrir stjórnmálamenn til þess að nálgast þjóð sína. Ég satt að segja dreg það í efa og er að því leytinu til sammála Guðrúnu Agnarsdóttur í því sem hún sagði hér áðan, að margt í vinnubrögðum okkar hér á Alþingi er með þeim hætti að það þarf endurskoðunar við, að ekki sé meira sagt. Það væri a.m.k. fróðlegt að íhuga af og til hvort ekki mætti hleypa örlítið meiru af 20. öldinni inn í þessa sali en stundum gerist.
    Í þessari umræðu um stjórnmál er yfirleitt lögð megináhersla á að ræða um efnahags- og atvinnumál og í rauninni er það þannig að við tölum öll í fjarska líkum vendingum. Við höfum búið okkur til net af orðum sem við skiljum þegar við erum að tala hvert við annað en það er erfitt oft og tíðum fyrir þjóðina að átta sig á því hvað það er sem við erum að fara.
    Því miður er það svo að það fæst ekki mikil umræða t.d. um umhverfismál, eins og hv. þm. Árni Gunnarsson drap á hér áðan. Því miður er það einnig svo að umræða um undirstöðuþátt eins og mennta- og menningarmál fæst lítil eða ekki í umræðum af þessu tagi. Við höfum í menntmrn. á þessum vetri beitt okkur fyrir víðtækri umræðu um skólamál og um menningarmál allt í kringum landið með fjöldamörgum fundum. Við viljum opna þessa umræðu og fá sem flesta til að taka þátt í henni til þess fyrst og fremst að skapa skilning á því með þjóðinni allri að það er óhjákvæmilegt verkefni að lyfta virðingu skólans þannig að staða hans verði sem sterkust, bæði í bráð og í lengd.
    Við höfum þrátt fyrir knappan tíma á þessum vetri náð því að koma fram í þinginu ýmsum umbótamálum í skólamálum sem ég vil hér nefna. Ég nefni breytingu á háskólalögunum sem gerir ráð fyrir því að það verði komið í veg fyrir að menntamálaráðherrar geti beitt kúgunarvaldi gegn Háskóla Íslands eins og gerðist við embættaveitingar á sl. sumri. Ég nefni ákvarðanir sem núv. ríkisstjórn hefur tekið um tvöföldun námsstyrkja og um ný lög um jöfnun námskostnaðar sem hafa verið afgreidd á Alþingi. Ég nefni frv. um íslenska málnefnd þar sem gert er ráð fyrir því að kalla til mikið fleiri aðila en áður til málræktarátaks í þágu íslenskrar tungu vegna þess að við vitum að íslensk tunga má aldrei verða þannig stödd að einungis sérfræðingar gæti hennar.
    Ég legg einnig áherslu á það, virðulegi forseti, í þessari umræðu að frv. ríkisstjórnarinnar um umhverfisráðuneyti er að mati okkar alþýðubandalagsmanna úrslitamál. Við leggjum mikla áherslu á að það nái fram að ganga. Auðvitað er það svo að í stjórnarsamstarfi eins og því sem við tökum þátt í eru margvíslegir þættir sem upp koma og erfitt

er fyrir okkur að sætta okkur við í einstökum tilvikum. Það er eins og gengur. Í þeim efnum gæti ég t.d. nefnt utanríkismálin. Það hefur ekki allt þar verið með þeim hætti sem við hefðum kosið. Ég tel hins vegar ástæðu til að vekja athygli á þeirri umræðu og þeim ákvörðunum sem orðið hafa til í ríkisstjórninni varðandi íslenskt frumkvæði um afvopnun á höfunum.
    Góðir tilheyrendur. Hér í kvöld hafa fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu lagt fram sín mál. Í rauninni er eitt sem sker í augun. Í rauninni er það eitt sem hlýtur að standa eftir eftir þetta kvöld. Og hvað er það? Það er algert úrræðaleysi og málefnafátækt Sjálfstfl. Hann hefur engar tillögur. Hann átti fjóra ræðumenn hér í kvöld. Hann hefur að vísu lagt fram tillögur í vetur af og til um gengisfellingu og gengisfellingu aftur, aðrar tillögur hefur hann ekki haft.
    Það kemur oft fyrir í ríkisstjórnum, einkum og sér í lagi samsteypustjórnum, að það er erfitt að gæta trúnaðarmála og það er stundum talað um leka. Best geymda trúnaðarmál þessa vetrar er hvaða úrræði Sjálfstfl. kann að hafa í efnahags- og atvinnumálum. Mér þætti vænt um að þjóðin yrði upplýst um það fljótlega hvað þessi fjölmenni stjórnmálaflokkur hefur til málanna að leggja. Hér í kvöld hefur hann ekkert sagt.
    Góðir tilheyrendur. Ég þakka þeim sem hlýddu á mál mitt. Lifið heil.