Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að taka undir það sem hv. 17. þm. Reykv. gerði að umtalsefni vegna þess að ég var stödd hér þegar það átti sér stað sem hér hefur verið lýst. Það fór með mig eins og hann að ég áttaði mig ekki á því að um brot á þingsköpum væri að ræða. Hins vegar fannst mér úrskurður forseta mjög ósanngjarn og hættulegt að takmarka þannig ræðutíma þingmanna eins og forseti úrskurðaði á þessum tíma, auk þess sem það braut berlega í bága við þingsköp. Ég vil benda á sérstaklega að í þingsköpum er talað um að ekki megi takmarka ræðutíma meira en svo að umræðan taki þrjár klukkustundir alls. Ég vil í því sambandi benda á að á dagskrá voru sex skýrslur, fimm skýrslur fyrir utan skýrslu hæstv. utanrrh., og það hafði verið áætlað að tveir dagar færu eingöngu í skýrslu utanrrh. og einn dagur í skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar um norrænt samstarf. Ég skil því ekki á hvaða forsendu forseti úrskurðaði takmörkun á ræðutíma. Við vorum ekki meira en 13 klukkustundir alls að ræða þessi sex mál. Það að við höfum verið orðin mjög þreytt og þyrftum að mæta daginn eftir kannast ég ekki við að neinn hafi verið að kvarta um af þeim fáu sem voru eftir í húsinu. A.m.k. kom það ekki frá mér þó að ég hafi þurft að mæta snemma daginn eftir. Ég lýsi óánægju með úrskurð forseta og mun mótmæla ef þetta kemur fyrir aftur. Ef á að fara að takmarka ræðutíma þarf að gera það fyrir fram með samkomulagi en alls ekki eins og hér var gert aðfaranótt miðvikudagsins.