Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu, en nafn mitt hefur blandast inn í þessa umræðu og það af hálfu hæstv. forseta. Mér finnst menn ræða svolítið gálauslega úr hærri hæðum um þingsköpin og það sem að þeim lýtur og þátttöku þingmanna í því sem að þeim lýtur. Ég get ekki neitað því. Ég held að það liggi alveg fyrir að það var ekki búið að gera neitt samkomulag varðandi ræðutíma í umræddri umræðu. Það var búið að draga henni almenn mörk án þess að það væri fastmælum bundið að ég hygg. Ég var þátttakandi í þessari umræðu sem eini talsmaður Alþb. Ég ætla ekki að fara að metast á hér um hvað ég hafi rætt lengi í þeim tveimur ræðum sem ég hélt þarna. Ég hygg að ég hafi rætt í seinna skiptið í hálftíma um það sem fram hafði komið. En þetta er algert aukaatriði í þessu máli. Það sem skiptir máli eru þingsköpin, 38. gr. þeirra sem hér er til umræðu. Ég held að menn þurfi ekki að lesa lengi til þess að sjá það að ekki var, því miður, farið eftir því sem þar er greint í sambandi við þessa umræðu eða lyktir hennar og þarf auðvitað að gæta þess að slíkt endurtaki sig ekki.