Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar vil ég nota þetta tækifæri til þess að láta það koma fram að mér þótti mjög leitt að hafa ekki tækifæri til að koma til þingfundar þessa umræddu nótt og svara hans fyrirspurn. Ástæðan var einkum sú að þessa nótt fóru fram viðræður um mjög mikilvæga kjarasamninga, sem lauk sem betur fer kl. sex þennan sama morgun, og einnig fram eftir kvöldi og fram á nótt viðræður og vinna í tengslum við kjarasamninga sem lauk í gær. Ég vona að hv. þm. og aðrir þingmenn skilji að það var mjög erfitt að fara frá þeim verkum á þessum tímapunkti.
    Í öðru lagi vil ég láta koma fram að það var ekki fyrr en seint í gærkvöldi sem mér var kunnugt um að sú ósk hefði komið fram að utanrmn. fengi þá skýrslu sem reyndar ég er nú ekki eini höfundur að heldur Tómas Tómasson, sendiherra Íslands í Moskvu. Þetta er sameiginleg skýrsla frá mér og Tómasi Tómassyni um þessar viðræður vegna þess að hann var með mér á öllum þessum viðræðufundum. Það er sjálfsagt mál að láta utanrmn. hana í té og ég mun gera ráðstafanir til þess. Ég er einnig reiðubúinn til þess ef þess verður óskað að ræða viðræðurnar nánar við hv. utanrmn.