Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls vegna þessara athugasemda, en það eru orð hæstv. forseta sem valda því að ég þarf að blanda mér í umræðurnar.
    Í fyrsta lagi það sem samið var um. Ég tók þátt í við skulum kalla það samkomulag sem gert var um umræðuna. Það var fallið frá því að halda áfram fyrra kvöldið en samið um að umræðunni skyldi ljúka á næsta fundi. Það var hins vegar ekkert samið um það klukkan hvað það skyldi verða og menn gerðu sér alveg ljóst að umræðan kynni að standa fram á nótt. Þetta var það sem samið var um.
    Í öðru lagi liggur alveg fyrir að hæstv. forseti úrskurðaði að umræðum skyldi lokið, ég er hér með útskrift af því sem hæstv. forseti sagði, kl. 20 mín. yfir 3. ,,Þeir hv. þrír þingmenn sem beðið hafa um að gera athugasemd hafa tvær mínútur til þess.`` Þetta er rangur úrskurður. Það er ekki heimild í þingsköpum fyrir hæstv. forseta til að úrskurða svona. Það er ekki hægt að skjóta sér á bak við það, eins og mér fannst hæstv. forseti gera, að það séu ekki nægilega margir þingmenn í húsinu og fundurinn þess vegna ekki ályktunarbær. Það veitir ekki forseta rétt til að úrskurða eins og hann gerði. Þetta er mergurinn málsins.
    Það dugar heldur ekki, hæstv. forseti, að bera því við að enginn hafi mótmælt úrskurði hans. Það hefur komið fram hjá hv. þm. Geir H. Haarde að hann þekkti ekki þessi ákvæði þingskapa og þess vegna mótmælti hann ekki.
    Sú ósk hæstv. forseta að menn eyddu ekki þessum fundi í þingskapaumræðu er góð og gild, en ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það vera hæstv. forseti sem veldur því að þessi umræða dregst eitthvað á langinn.
    Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Þessi úrskurður hæstv. forseta var efnislega rangur og hann var ósanngjarn.