Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hv. 17. þm. Reykv. gerði gjög skilmerkilega og góða grein fyrir þeim atburðum sem áttu sér stað í lok umræðu um skýrslu utanrrh. og í sjálfu sér hefði ekki verið ástæða til eða tilefni til að hafa umræður um þingsköp lengri, svo skýrt sem mótmæli hans komu fram, nema vegna þess hvernig forseti hefur brugðist við í ummælum sínum, bæði vegna þessa úrskurðar og svo í garð hv. þingmanna.
    Ég kannast ekki við að það hafi verið gert neitt samkomulag um takmörkun á ræðutíma þegar um það var talað á milli þingflokka að umræðan yrði ekki teygð yfir á fundatíma deilda á miðvikudegi. Það er því ekki hægt fyrir hæstv. forseta að vitna í nokkurt slíkt samkomulag. Það liggur líka fyrir að bæði hæstv. utanrrh. og hv. 2. þm. Austurl., talsmenn stjórnarflokkanna í þessari umræðu, höfðu flutt langar og ítarlegar ræður þá um nóttina í annað sinn og ég er ekki að gera athugasemd við það, til þess höfðu þeir rétt, en þegar þeir höfðu lokið máli sínu grípur forseti til þessara óyndisúrræða.
    Forseti hefur haldið því fram að hann hafi haft rétt til að brjóta þingsköpin og úrskurða að umræðu skyldi lokið innan tiltekins tíma vegna þess að of fáir menn hafi verið í þingsalnum og ekki unnt að bera tillögu þar að lútandi undir þingið. Ég hef ekki í annan tíma heyrt jafnfrjálslega túlkun á framkvæmd þingskapa. Forseti gæti samkvæmt þessu eins tekið sér rétt til þess að úrskurða að þingsályktunartillögur væru samþykktar eða fjárlög þó að vantaði tilskilinn fjölda þingmanna, vegna þess að nægjanlega margir þingmenn væru ekki í salnum hefði forseti úrslitavald um hvort fjárlög væru samþykkt eða þáltill. samþykktar.
    Ég held að flestir sjái að slík túlkun á framkvæmd þingskapa er algjörlega út í hött og þingmenn geta ekki látið bjóða sér túlkun og framkvæmd þingskapa með þessum hætti og hljóta að mótmæla því af mikilli hörku og einurð.
    Svo er það alveg sérstakt umræðuefni, þó að þessi ákvæði í þingsköpum séu fyrir hendi, hvaða tilefni er til þess nú að byrja að beita þessu ákvæði þingskapalaga sem heimilar takmörkun ræðutíma. Það er engin venja fyrir því í þinginu. Þvert á móti hefur verið litið svo á, þó þetta ákvæði væri fyrir hendi, að þingmenn hefðu fullan og óskoraðan tíma til að ræða sín mál og færa fram sín rök í ræðum. Ég man ekki eftir því að til þessa ráðs hafi verið gripið og síst með þeim hætti sem forseti gerði í þessu tilviki. Þess vegna er enn fremur, ofan á þau augljósu brot á þingsköpum, ástæða til að mótmæla því ef hér á að fara að taka upp nýja hætti. Og ég vil inna eftir því: Er það ætlun ríkisstjórnarinnar að þvinga sín mál fram með því að fara að takmarka ræðutíma þingmanna? Er það eina aðferðin sem hæstv. ríkisstjórn sér til að koma málum sínum fram að takmarka ræðutíma alþingismanna og þá fyrst og fremst stjórnarandstöðunnar?
    Ég vil minna á í þessu tilviki að einum þingmanna stjórnarandstöðunnar, sem flutti frv. um afnám þess

mikla misréttis sem hæstv. fjmrh. innleiddi með sérstökum eignarskatti sem kemur með mestum þunga niður á ekkjum og ekklum, voru sett þau skilyrði í Nd. Alþingis að hann fengi tvær mínútur til þess að mæla fyrir frv. og engir aðrir mættu tala og ef flm. gengi ekki að þessum kostum væri allsendis óvíst að mál hans fengist tekið á dagskrá. Þetta eru vinnubrögðin sem hér er verið að sýna. Ég inni eftir því hvort það eru fyrirmæli hæstv. ríkisstjórnar að þannig skuli staðið að verki við stjórn þingsins og mótmæli þessum vinnubrögðum mjög kröftuglega.