Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Við ræðu hv. síðasta ræðumanns hef ég litlu að bæta. Þó vil ég benda hv. þingheimi á að fleiri ákvæði er að finna í lögum um þingsköp. T.d. hefst 34. gr. á þessum orðum: ,,Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni.`` Átta hv. þingmenn voru í þingsölum lengst af þessa nótt. Sé einhvern tíma ástæða til að beita þeirri heimild sem óumdeilanlega er að finna í 38. gr. þingskapa var það þarna.
    Það er ekkert fjær forseta en að takmarka málfrelsi manna á hinu háa Alþingi og hefði nokkur þm. hv. mótmælt þessum úrskurði hefðu þau mótmæli að sjálfsögðu verið tekin til greina. Forseta sýndist að þeim örfáu hv. þm. sem hér voru staddir væri heldur létt við þennan úrskurð forseta og enginn gerði athugasemd við hann fyrr en daginn eftir.
    Forseti vill ítreka: Hafi hér verið framið alvarlegt brot á þingsköpum mun að sjálfsögðu verða beðist afsökunar á því. Ég tel óþarft að eyða löngum tíma í mótmæli vegna þessa úrskurðar og bendi á að á þessum aukafundi í Sþ., sem boðað var til til að þingmenn fengju svör við fsp. sínum, hafa í þessar umræður nú farið 40 mínútur og ég vil því biðja hv. þm. að takmarka þessar umræður um þingsköp.
    Ég hef áður lýst því yfir að ég mun láta athuga hvort alvarlegt brot á þingsköpum hefur verið framið. Sé svo mun ég biðjast velvirðingar á því.