Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að hafa nú upplýst að hann muni láta utanrmn. í té þá greinargerð sem hann og sendiherra okkar í Moskvu sömdu og afhentu ríkisstjórninni að ég ætla fyrir mánuði síðan eða hvað það nú er.
    Hæstv. fjmrh. segir áðan að væntanlega skilji ég að það hafi verið erfitt fyrir hann að fara frá þessum verkum, eins og hann orðaði það, mikilvægum verkefnum sem hann hafði að sinna í sambandi við samningamál. Það get ég mjög vel skilið að hafi verið erfitt fyrir hæstv. ráðherra að gera, að fara frá þeim verkum, en mér fannst samt og finnst enn þá frekar en þarna um nóttina að hann hefði getað komið til okkar boðum um það og jafnvel falið einhverjum að svara fyrir sína hönd þessum einföldu spurningum. Þær voru tvær, annars vegar hvort í þessum viðræðum hefði komið fram krafa eða ósk af hálfu Sovétmanna um að fá að veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu og hins vegar hverju hann hefði þar svarað. Þessum skilaboðum hefði hæstv. ráðherra getað komið til okkar.
    En hitt er kannski alvarlegra, að okkur var tjáð hér að það hefði aldrei náðst til ráðherrans. Nú upplýsir hann eða það er ekki hægt að skilja orð hans öðruvísi en það þegar hann segir að hann vonist til þess að ég skilji að það hafi verið erfitt að fara frá þessum verkum að hann hafði þó þrátt fyrir allt fengið skilaboðin. Það var á níunda klukkutímanum sem þessi ósk var fram borin og auðvitað gera starfsmenn Alþingis það sem þeir geta til þess að finna ekki ómerkari mann en sjálfan hæstv. fjmrh. og á heimili hans lágu auðvitað fyrir boð líka. En mér var sagt að aldrei hefði til hans náðst. Nú skulum við láta þetta liggja á milli hluta, en orð hans var ekki hægt að skilja öðruvísi en að þrátt fyrir allt hefði hann fengið boð um þetta úr því að hann segir að ég ætti að skilja að það væri erfitt að fara frá þessum verkum.
    En hann segir ósatt í öðru tilfelli. Hann segir: Mér var ekki kunnugt um þetta, þ.e. málið sem við erum að ræða, mína ósk um að hann kæmi þessari skýrslu á framfæri, fyrr en seint í gærkvöld. Þetta er ósatt mál. Það var í upphafi fundar í gær sem ég tjáði honum þetta. Og ef þetta væri satt, þá er það innanhúsmál ríkisstjórnarinnar því að hæstv. utanrrh. tók að sér eða ég skildi hann svo að koma þessari ósk á framfæri. Það er ekki við okkur að sakast þess vegna. En við skulum ekki láta þetta vera aðalatriðið í málinu. Hitt er aðalatriðið að við fáum skýrsluna og vonandi verður það í dag.