Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil ógjarnan liggja undir þeim sökum að segja ósatt. Það gerði ég ekki. Í fyrsta lagi sagði hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson að hann hefði borið þessa ósk fram við mig í gærdag. Það var ekki fundur í þinginu fyrr en í gærkvöld. (Gripið fram í.) Já, í gærdag, sagði þingmaður, en í gærkvöld, og það er alveg hárrétt að mér var ekki kunnugt um þá ósk fyrr en þá. ( EKJ: Ég sagði seint í gær.) Ja, ég kom til þingfundar milli hálfníu og níu. Það kalla ég seint. En við skulum ekki vera að tala um það. Það er aukaatriði í málinu. En fyrst svo sterkt var tekið til orða að ég hefði sagt ósatt vildi ég ekki sitja undir því.
    Ég vil einnig, vegna þess að ekki vil ég láta liggja sök á starfsfólki þingsins, segja að sú vinna sem fór fram og ég vék að áðan var ekki í húsnæði fjmrn. eða á öðrum þeim vanabundnu stöðum þar sem þau verk eru venjulega unnin þannig að það var ekki fyrr en langt var liðið á nóttu sem ég fékk vitneskju um að það hefði verið reynt að ná í mig. Ég vil að það liggi líka alveg skýrt frammi. Þá var þessi vinna á því stigi, sem ég nefndi áðan, að samningagerðinni lauk kl. 6 um morguninn. Ég vona að þetta valdi ekki neinum misskilningi hér, hvorki milli mín né hv. þm. né milli þeirra og ágæts starfsfólks Alþingis.