Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki haft ráðrúm til að ráðfæra mig við skrifstofustjóra Alþingis né við hv. 4. þm. Vestf. Þorv. Garðar Kristjánsson um hvort það sé talið eðlilegt eða venja að ráðherrar sitji fyrir þegar rætt er um þingsköp og fari fram fyrir almenna þingmenn í slíkri umræðu. Mér þykir það í hæsta máta óeðlilegt og get ekki séð með hvaða rökum svo ætti að vera. En það er sjálfsagt að hafa sama háttinn á og hæstv. forseti að athuga þetta nánar milli funda.
    En ég stóð ekki upp af þessu tilefni heldur öðru. Sú venja hefur tíðkast nú í Sþ. að farið er að setja fundi þó svo lítill hluti þingmanna sé mættur í þingsal. Ég er óvanur slíkum vinnubrögðum forseta eftir að hafa verið lengi skrifari Sverris Hermannssonar, sem hafði þingsköp mjög í heiðri, svo að mér varð það á að telja ekki þá þingmenn sem voru í þingsalnum þegar þessi fundur var settur. Ég hef hins vegar fylgst með því meðan þingskapaumræða hefur farið fram og ég fullyrði að í þær 45 mínútur sem þessi fundur hefur staðið hefur ekki komið fyrir eitt andartak að helmingur þingmanna hafi samtímis verið inni í þessum þingsal. Samt sem áður, út af athugunarleysi mínu og annarra þingmanna sem ekki vaka yfir hverju handtaki og hverju orði hæstv. forseta, er fundurinn búinn að afgreiða gerðabók Sþ. tveggja síðustu funda og fundargerðir eru undirritaðar af forseta og ritara. En í 45. gr. þingskapa segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eigi má gera neina ályktun nema meira en helmingur þingmanna í sameinuðu þingi eða viðkomandi deild sé á fundi og greiði þar atkvæði, sbr. 53. gr. stjórnarskrárinnar. Þingmaður, sem er á fundi en greiðir ekki atkvæði við nafnakall, án lögmætra ástæðna, telst taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Engin ályktun er lögmæt nema meira en helmingur fundarmanna, þeirra sem atkvæðisbærir eru, greiði atkvæði með henni. Skylt er þingmanni, hvort heldur í deild eða sameinuðu þingi, að vera viðstaddur og greiða atkvæði nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi. Enginn þingmaður má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín.``
    Svo mörg voru þau orð. Þetta er 45. gr. í heild. Það er alveg ljóst samkvæmt þessari grein að sá fundur sem við nú sitjum hefur ekki haft heimild til þess að afgreiða gerðabók tveggja síðustu funda. Það er morgunljóst. Því miður er svo komið að við þingmenn verðum að gá betur að þingsköpum og gæta þess að virðingu þingsins sé haldið hér og farið eftir þeim sjálfsögðu leikreglum sem við sjálfir höfum sett okkur og á að tryggja rétta framkvæmd þingræðis í landinu.
    Ég vil í annan stað segja, úr því að hæstv. forseti fer á annað borð að tala um að hann ætli að athuga hvort hann hafi gert skyssu, hvort hann hafi þá athugað það síðan umræður voru um skýrslu hæstv. forsrh. og orðið var tekið af mér í miðri ræðu hvort ég hafi átt rétt á því að ljúka ræðunni áður en aðrir þingmenn kæmu að. Ég fullyrði að fyrir því er ekkert fordæmi í sögu Alþingis að þingmaður sem er

fjarverandi þingfund vegna þess að ekki er flogið, vegna óveðurs, missi rétt sinn. Ég fullyrði það. Ég vil því spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi gert athugun á því hvort þar hafi verið brotinn réttur á þingmanni.
    Ég vil í þriðja lagi segja að ég skil ekki hvað hæstv. forseti á við þegar hann talar um ,,alvarlegt brot`` á þingsköpum. Hann mun láta athuga hvort alvarlegt brot á þingsköpum hafi verið framið. Er allt í lagi að fremja smávægilegt brot á þingsköpum? Kallast það kannski alvarlegt brot á þingsköpum ef margir eru í salnum en smávægilegt ef hér eru bara átta þingmenn? Það er mikil spurning hvernig eigi að túlka slík ummæli þegar þannig er talað.
    En höfuðatriði míns máls er þetta: Ég vil biðja þingmenn, eins og ég áminni sjálfan mig um það, að við gætum þess að þeirri góðu reglu sé fylgt að þingfundir séu ekki settir nema helmingur þeirra þingmanna sem seturétt eiga séu mættir í salnum, hvort sem við erum að tala um Sþ., Ed. eða Nd. Ef sú lausung verður hér áfram innan þessara sala að forsetar þingsins geti sett þingfundi þegar þeim rétt svo sem sýnist og geti á slíkum fundum þó fáir séu mættir afgreitt hin mikilsverðustu mál, þá er illa komið, líka vegna hins að farið er að boða fundi í deildum og í Sþ. með litlum fyrirvara. Eftir engu er farið þó sú almenna regla sé að þingfundir skuli ekki byrja fyrr en kl. 2 og ekki gengið úr skugga um að þingmönnum hafi borist boð um afbrigðilegan fundartíma þegar þingfundir eru settir. Auðvitað á það að vera gullvæg regla þegar um afbrigðilegan tíma er að ræða að hver einasti þingmaður sem seturétt á hafi vitað um afbrigðið. Að öðrum kosti á forseti að sjá sóma sinn í því að setja ekki fundinn. Ég harma að svo skuli komið hér á hinu háa Alþingi að forseti Sþ. skuli ekki leggja neitt upp úr því að 32 þingmenn séu í það minnsta mættir í þingsalnum þegar fundur er settur og ég harma að afgreiðsla tveggja síðustu fundargerða hafi getað farið hér fram athugasemdalaust af hálfu þeirra þingmanna sem í þingsalnum voru.