Úrskurður forseta um takmörkun umræðna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti vill upplýsa að þess hefur jafnan verið gætt þegar fundur hefur verið settur eða ályktanir gerðar að meiri hluti Sþ. væri í húsinu. Hvort menn hafi setið í hliðarsölum eða annars staðar hefur verið látið kyrrt liggja. T.d. eru núna í húsinu 35 hv. þm. Í allri einlægni vil ég benda á eftir tíu ára þingsetu að sú fjarstæða sem hér hefur verið höfð í frammi að fyrri forsetar hafi aldrei undirritað fundargerð nema meiri hluti Sþ. væri staddur í sætum sínum er úr öllu sambandi við raunveruleikann. Þetta vita auðvitað hv. þm. og tekur ekki að ræða það frekar.
    Hins vegar vill svo til að á tölvuöld er skjár í borði forseta þar sem unnt er að sjá hversu margir hv. þm. eru í húsinu. Ég fullvissa hv. þm. um að þess hefur verið gætt að nægilegur fjöldi þingmanna væri hér staddur.
    Hitt vil ég svo segja að hér hefur verið boðað til aukafundar vegna þess að í næstu viku falla allir fundir Sþ. niður, allir reglulegir fundir. Ég vil því biðja hv. þm. að eyða ekki þessum tíma í umræður um þingsköp. Ég held að menn hljóti að hafa komið þeim sjónarmiðum sínum á framfæri sem um er að ræða og vænti þess að menn geti lokið þessum umræðum.
    Forseti ítrekar að leitast hefur verið við að fara að lögum um þingsköp í sem mestum mæli. En hitt hlýtur forseti að segja, að ef hér stendur til að bera fram vítur á forseta fyrir að takmarka ræðutíma þessa umræddu nótt mun forseti að sjálfsögðu óska eftir því að 55 hv. þm. geri forseta grein fyrir hvaða nauðsyn bannaði þeim að sækja umræddan fund.