Lögreglurannsókn hjá búfjáreigendum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. Auður Eiríksdóttir hefur lagt fram fsp. um það sem nefnt er í fsp. lögreglurannsókn hjá búfjáreigendum og fyrsta spurningin er svohljóðandi:
    ,,Hvaða ástæður lágu til þess að landbrn. fékk dómsmrn. til að láta gera lögreglurannsókn á fjölda búfjár í landinu?``
    Hér gætir nokkurs misskilnings því að það sem hér er um að ræða er að landbrn. fól Búnaðarfélagi Íslands, ekki dómsmrn., að annast þessa talningu og er hér um venjulegan vorásetning að ræða, sbr. búfjárræktarlög, en leitað var til dómsmrn. um að aðstoða við þessa talningu og þessa framkvæmd þar sem ætlunin var og ætlunin er að afla eins nákvæmra og óvefengjanlegra upplýsinga og kostur var um allt land. Fordæmin eru mörg fyrir því að leitað sé aðstoðar hjá dómsmrn. og reyndar er það svo að í búfjárræktarlögum er hvað eftir annað vísað til þess að sýslumenn eða aðrir fulltrúar yfirvalda skuli aðstoða við störf ásetnings- og forðagæslumanna og sveitarstjórna að þeim málefnum ef ástæða telst til eða þörf krefur.
    Í öðru lagi: ,,Ef búfjáreigandi neitar löggæslumanni um aðgang að húsum sínum verður þá óskað eftir úrskurði um húsleit?`` Svarið er nei og á þetta mun ekki reyna þar sem búfjárræktarlög gefa ásetningsmönnum ótvíræðar heimildir til að sinna sínum störfum og mér er ekki kunnugt um annað en það hafi allt saman gengið eftir atvikum.
    Í þriðja lagi: ,,Verður þessi lögreglurannsókn framkvæmd í þéttbýli eins og í strjálbýli?`` Svarið er að þessi sérstaki ásetningur verður framkvæmdur um allt land og það er einmitt m.a. tilgangurinn að tryggja að framkvæmdin verði alls staðar vönduð, eins á þeim svæðum þar sem ástæða er til að áætla að ásetningur hafi ekki verið nógu vandaður undanfarin ár.
    Í fjórða lagi: ,,Ef rökstudd ástæða er fyrir hendi um að láta fara fram búfjártalningu um allt land hefði þá ekki verið viðkunnanlegra að landbrn. skrifaði öllum sveitarstjórnum bréf þess efnis um að þær tilnefndu mann sem framkvæmdi slíka talningu með forðagæslumanni eða mönnum heldur en að framkvæma slíka talningu með löggæslumönnum?`` Svarið er að ég veit ekki hvað einstökum aðilum kann að finnast viðkunnanlegt og hvað ekki í þessum efnum, það getur verið smekksatriði fyrir hvern og einn, en það er algilt og iðulega sem leitað er aðstoðar slíkra aðila sem í þessu tilviki eru þá eins konar fulltrúar og gæslumenn þess að um framkvæmdina verði ekki unnt að deila, að hún verði traust og þær upplýsingar sem fram koma séu sem allra óvefengjanlegastar.
    Í fimmta lagi: ,,Er ekki hætt við að forðagæslumenn og bændur telji að þessi lögreglurannsókn feli í sér vantraust á þá?`` Ég ætla að vona að menn telji að svo sé ekki. Mjög margir skilja hvað hér er verið að gera, að afla þessara upplýsinga þannig að unnt sé að kveða niður þann orðróm og þá

leiðindaumræðu sem uppi hefur verið og dunið á bændastéttinni og forráðamönnum landbúnaðarins um ýmiss konar misnotkun, tengda því framleiðslustjórnunarkerfi og opinberum fjárframlögum sem þar eru á ferðinni. Það er m.a. einn tilgangur þessarar aðgerðar. Og til þess að það megi takast þurfa þær upplýsingar sem fram verða reiddar að vera mjög traustar og ekki um það deilanlegt að þær séu réttar.
    Ég vil svo taka fram að harma ber rangan og villandi fréttaflutning af þessari talningu og ég hef ástæðu til að ætla að sá óróleiki sem orðið hefur óneitanlega nokkur í þessu tilefni stafi fyrst og fremst af því að mjög röngum og villandi upplýsingum var komið á framfæri í fjölmiðlum, sem byggðu á ótraustum heimildum og flugufregnum, áður en sjálf framkvæmdin hafði verið ákveðin. En svo óheppilega tókst til að einhvers konar upplýsingar bárust fjölmiðlum þegar verið var að undirbúa framkvæmd þessa vorásetnings, þessarar talningar, og tóku raupgjarnir fréttamenn þá upp í sig og hófu upp vangaveltur um alls óskylda hluti eins og skattaleg málefni, skjalameðferð og aðra slíka hluti sem ekki tengjast þessu máli á nokkurn hátt.