Lögreglurannsókn hjá búfjáreigendum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það orkar ekki tvímælis í hvaða tilgangi sú búfjártalning fer fram sem nú á sér stað. Raunar kom fram hjá hæstv. landbrh. ákaflega mikilvæg skýring á því hvers vegna þetta verklag er viðhaft. Hæstv. ráðherra komst svo að orði að þessi talning og könnun færi fram vegna þess orðróms sem gengið hefur um búfjártölu í landinu. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. landbrh. og það verður náttúrlega ekki komist hjá því að fá svör við þeirri spurningu: Hver er þessi orðrómur, hæstv. landbrh.? Hver er sá orðrómur sem gerir það að verkum að nauðsynlegt er að framkvæma eignakönnun hjá einni stétt landsins með lögregluaðgerð? Þetta er grundvallarspurning.
    Ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni, að auðvitað er vorskoðun nauðsynleg. En hún á við fóðurmat og núna á þessu kalda vori, en fróðir menn segja mér að þurfi að fara allt aftur til ársins 1920 til þess að finna hliðstæðu, væri sannarlega ástæða til að það væri upplýst af hæstv. landbrh. hvað hann hefði í hyggju og ríkisstjórnin til að aðstoða bændur við að mæta þeim harðindum sem þeir standa núna frammi fyrir á þessu vori með öðru en því að bera á þá sakir um rangar upplýsingar af fénaði sínum og fóðri.