Lögreglurannsókn hjá búfjáreigendum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Mitt erindi í þennan ræðustól að þessu sinni er aðeins eitt. Það er að vekja athygli á því að það kom ekki fram svar frá hæstv. landbrh. um það sem er grundvallaratriði í þessu máli út frá því sem kom fram í fyrri ræðu hans þar sem hann sagði að þessi framkvæmd væri til þess ætluð að kveða niður orðróm. Ég spurði: Hvaða orðróm á að kveða niður? Ef það er svo að hæstv. landbrh. er að tala um orðróm um t.d. svokallaða framhjásölu hygg ég nú að þessi búfjártalning geti frekar orðið til þess að magna hann en slæva. Það veit ég reyndar að hæstv. landbrh., sem er uppalinn í miklu sauðfjárræktarhéraði, veit mætavel að það er ákaflega misjafnt hvaða afurðum sauðfjárbúin skila á hinum ýmsu stöðum á landinu og reyndar innan tiltekinna sveitarfélaga. Það verður ekki séð að þetta leysi neinn sérstakan vanda að þessu leyti.
    En ég mætti kannski endurtaka þessa fyrirspurn, hæstv. landbrh.: Hvaða orðróm á þessi lögregluaðgerð að kveða niður?