Lögreglurannsókn hjá búfjáreigendum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Tilgangur þessarar talningar er margþættur eins og ég hef þegar gert grein fyrir og það er ekki rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, 4. þm. Austurl., að það sé eingöngu þessi tilgangur sem fyrir mönnum vakir. En hinu er ekki að neita að þess verður gætt og það verður kostur að hafa í höndum mjög traustar upplýsingar sem ekki verður unnt að vefengja við ýmiss konar samanburð sem þegar er framkvæmdur í stjórnkerfi landbúnaðarins á grundvelli ásetnings búfjár.
    Ég vil svo taka fram að lokum að þegar leitað var til dómsmrn. eins og ég tók fram í mínu svari í upphafi skýrt og greinilega, tók það fram að leitað hefði verið til dómsmrn. um að aðstoða við þessa framkvæmd, þá voru engar efasemdir uppi í huga manna um það að þeir gætu lagt þessu verkefni lið.