Skyldleiki íslenskra laxastofna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Guðmundur G. Þórarinsson, hv. 10. þm. Reykv., spyr í fyrsta lagi: ,,Hefur landbrn. eða Veiðimálastofnun látið fara fram eða ráðgert vísindalegar rannsóknir á erfðafræðilegum mismun laxastofna í íslenskum ám?``
    Engar fullkomlega öruggar aðferðir hafa verið þróaðar til að greina sundur laxastofna eftir uppruna. Rafdráttur hinna ýmsu eggjahvítuefna í laxi er hins vegar álitin ein besta aðferðin. Veiðimálastofnun áætlar að hefja rannsóknir á skyldleika íslenskra laxastofna með rafdrætti eggjahvítuefna úr mismunandi stofnum strax á þessu ári. Byrjað verður á ám við sunnanverðan Faxaflóa sem mest verða fyrir áhrifum af kvíaeldi í sjó. Síðan verður unnið að málinu eins og fjármunir leyfa, en veiðifélög hafa lofað að leggja þessu máli nokkurt lið. Haft verður samráð við sérfræðinga á Norðurlöndum og í Skotlandi um framkvæmd og túlkun gagna. Í Laxeldisstöð ríkisins er einnig unnið að því að rannsaka ratvísi mismunandi villtra stofna og blendinga þeirra. Smáum hópum seiða af slíkum uppruna verður sleppt vorið 1989 og fyrstu svör munu fást árið 1990.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Telja sérfræðingar landbrn. og Veiðimálastofnunar að erfðafræðilegur munur sé á íslenskum eldislaxi og íslenskum villtum laxastofnum?``
    Ljóst er að megnið af eldislaxi hér á Íslandi er ættaður úr laxveiðiám ef undan eru skildir stofnar frá Ísnó sem hafa verið í eldi í 1--2 kynslóðir og stofn frá Eldi hf. sem einnig hefur verið nokkurn tíma í eldi. Ekki er vitað hver hlutdeild þessara mismunandi stofna er í sjókvíaeldi hér við land. Segja má að áhyggjur sérfræðinga stafi ekki eingöngu af því að hér er um eldislax að ræða heldur fremur af því að hér eru á ferðinni blandaðir stofnar úr ýmsum landshlutum. Hugsanlega er munur á erfðafræði stofna í réttu hlutfalli við vegalengdina milli viðkomandi áa og á þetta sérstaklega við ef jafnaðarskilyrði í sjó á viðkomandi stöðum eru mjög mismunandi. Því væri ákjósanlegast að lax í kvíum á Faxaflóasvæðinu væri aðallega stofnar af Vestur- og Suðurlandi. Þar sem megnið af laxinum er hins vegar af villtum uppruna má telja líklegt að aðlögunarhæfni stofnanna sé tiltölulega góð.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Hvernig verður fylgst með hvort breytingar verða á erfðasamsetningu laxa í ám sem eldislax gengur í?``
    Erfitt verður að fylgjast með því hvort breytingar verði með tímanum á erfðafræði laxa í þeim ám sem kvíalax gengur í. Ekki er vitað hvort rafdráttur eggjahvítuefna er nægjanlega næm aðferð til að greina slíkt. Nokkrar vonir eru bundnar við kjarnasýrurannsóknir, en þær eru skammt á veg komnar. Hins vegar er rétt að benda á að það sem skiptir máli eru breytingar á framleiðni laxastofnsins í viðkomandi á. Hægt er að mæla seiðabúskap árinnar, merkja gönguseiði og mæla breytingu á heimtum. Heimtur eru hins vegar mjög breytilegar milli ára

vegna ýmissa ytri þátta og er því líklegt að staðfesting á breytingum í viðkomandi á séu mjög tímafrekar. Samhliða er nauðsynlegt að leggja áherslu á atferlisrannsóknir og kanna hvernig sambýli villta laxins og eldislaxins er háttað, sérstaklega með tilliti til hrygningar. Þær upplýsingar eru raunverulega grunnforsendur þess hvort og hversu hratt eldislaxinn hefur áhrif. Hér gæti komið fram mismunur sem ekki væri af erfðafræðilegum toga heldur fremur vegna mismunandi lífshlaups. Má þar nefna samkeppni villta laxins og eldislaxins um hrygningarstaði, kynþroskatíma, hrognagæði og úthald þeirra við að koma hrognum frá sér.
    Menn geta út af fyrir sig verið ósammála um það hvort aðkomulax hafi neikvæð áhrif á eldislax, en hinu verður ekki á móti mælt og það er það alvarlega í þessu máli að ef um stórfellda kynblöndun verður að ræða verður stofninum ekki breytt til fyrra horfs nema til sé erfðafræðilegt efni. Því er ráðgert að frysta svil úr þeim stofnum sem álitið er að verði fyrir mestum áhrifum af flökkulaxi, en það eru fyrst og fremst stofnar á Reykjavíkursvæðinu og í Hvalfirði.