Skyldleiki íslenskra laxastofna
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda að gefa mér tækifæri til að svara þessum spurningum og eins þeim öðrum sem þátt tóku í umræðunni eða gerðu athugasemdir. Ég tek undir að það er auðvitað ástæða til að hafa hér fulla gát á og nokkrar áhyggjur af. Enginn vafi er á því að mættu menn byrja upp á nýtt fyrir daga seiðasleppinga og fyrir daga fiskeldis mundu menn standa öðruvísi að málum því að menn gera sér nú grein fyrir því, sem ekki var áður, hvílík verðmæti eru í raun og veru fólgin í erfðaefnum þeirra stofna sem náttúran hefur sérhæft við sérstakar aðstæður, í hverri á fyrir sig og í hverjum landshluta fyrir sig. Þau miklu verðmæti sem bundin eru í þessu þróunarferli náttúrunnar og þessum erfðaefnum geta glatast, á því er lítill vafi, ef illa tekst til.
    Ég vil í þessu sambandi nefna að fyrir hinu háa Alþingi liggur frv. til l. um búfjárrækt þar sem gert er ráð fyrir genabanka eða erfðaefnabanka fyrir þær greinar sem undir landbúnaðinn heyra. Ég tel það vera stórt og mikilvægt málefni að við Íslendingar komum okkur upp erfðaefnabanka sem við getum lagt inn á þessi miklu verðmæti sem við þarna eigum og jafnframt þurfum við að taka af meiri krafti þátt í norrænu samstarfi um erfðaefnageymslur en enn þá er, þó að þau mál séu nú á réttu róli ef svo má að orði komast.
    E.t.v. er ástæða til þess að endurskoða fljótlega nýlega setta reglugerð um grenndarmörk fiskeldisstöðva og laxveiðiáa og enginn vafi er á því að æskilegt er að kvíaeldi verði sem mest beint að þeim svæðum sem lengst liggja í burtu frá mikilvægum laxveiðiám og laxveiðisvæðum. Ég mun sjá til þess að þessu viðfangsefni verði sinnt eins og kostur er, bæði hvað mannafla og fjárveitingar snertir, vegna þess að rannsóknir og upplýsingar eru einu aðferðirnar til að gefa þau svör sem allir geta hér gefið.