Fiskeldisfyrirtæki
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Forseti. Ég þakka fyrirspyrjendum fyrir þessa fsp. Í henni koma fram atriði sem væri nauðsynlegt að ræða ítarlegar á þinginu. Það má segja að afurðalána- og rekstrarlánamál fiskeldisstöðva hafi verið ein vandræðasaga í langan tíma.
    Með tilkomu Tryggingasjóðs fiskeldislána höfum við gert okkur vonir um að þetta muni breytast. Þó er það svo að sá sjóður setur ákveðin skilyrði og þar á meðal um bankaviðskipti og það hygg ég að sé málið sem fyrirspyrjandi er fyrst og fremst að höggva eftir. Það er ljóst að það er algerlega óviðunandi að sum fiskeldisfyrirtæki eigi engan aðgang að afurða- eða rekstrarlánum. Það er líka ljóst að það mat sem fer fram við það er ekki mat á fyrirtækjunum sem slíkum, að þau fái ekki, þau fyrirtæki sem rætt er um, sérstaklega á Austfjörðum og reyndar víðar, afurðalán vegna þess að rekstur þeirra sé ekki nægilega góður eða menn treysti þeim ekki, heldur miklu fremur hitt að það er svæðið sem um er að ræða, að sá banki sem á svæðinu er treystir sér ekki til að ganga frekar inn í afurðalánin. Þarna er um að ræða svæðisbundnar ákvarðanir sem eru algerlega óviðunandi.
    Útflutningsgrein verður að njóta afurðalána. Ríkisstjórnin er með í sínum stjórnarsáttmála ákvæði um að endurskoða afurðalánakerfið. Hún hefur sett nefnd í það. Sú ákvörðun að færa afurðalánin á sínum tíma frá Seðlabankanum út til viðskiptabankanna hefur ekki reynst nægilega vel ef þetta fæst ekki í lag og við eigum ekki aðra leið en færa þetta aftur til Seðlabankans eða stofna sérstakan afurðalánasjóð sem tekur að sér þessi afurðalán ef viðskiptabankakerfið er ekki fært um að taka við þessu. Ég vil alveg sérstaklega beina því til landbrh., vegna þess að hér er um að ræða atvinnugrein, útflutningsgrein sem heyrir undir hans ráðuneyti, að þetta er mjög brýnt mál. Fyrirtækin riða, þau ramba, þau hafa ekki fóður handa fiskinum og þau fara yfir á stuttum tíma ef þessi kerfislagfæring verður ekki framkvæmd.