Úttekt á byggingum
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Það er öllum kunnugt að landið okkar er vegna jarðfræðilegrar legu sinnar land eldsumbrota og jarðhræringa og tæpast líður svo nokkurt ár að við séum ekki rækilega minnt á það. Nægir að nefna að t.d. í vetur var almannavarnanefnd Mývatnssveitar lengi í viðbragðsstöðu vegna landriss í Kröflu. Þau svæði hér á landi þar sem einkum má búast við kröftugum jarðskjálftum eru Suðurlandsundirlendið frá Ölfusá að Markarfljóti og sprungusvæðið á Norðurlandi frá Eyjafirði að Öxarfirði að báðum meðtöldum. Á Norðurlandi er talið að þéttbýlisstaðir eins og Dalvík, Hrísey, Húsavík og Kópasker séu á jarðfræðilega viðkvæmum stöðum og megi þar búast við að jarðskjálfta geti borið að hvenær sem er. Jarðfræðingar telja sömuleiðis að búast megi við jarðskjálfta á Suðurlandi innan tíðar. Í ljósi þessa hljóta að vakna spurningar um viðbúnað og einnig það hvort byggingar á þessum stöðum, bæði í dreifbýli og þéttbýli, og mannvirki yfir höfuð á þessum viðkvæmu svæðum séu svo traust sem skyldi.
    Laust eftir 1970 gekk í gildi byggingarstaðall sem kveður á um styrkleika bygginga og þá með tilliti til jarðhræringa. Ég vil leyfa mér að spyrja: Er nógu traust eftirlit með því að farið sé eftir þessum staðli? Hins vegar eru auðvitað fjölmargar byggingar reistar fyrir gildistöku þessa staðals. Fólk byggði hús sín án þess að gera sér grein fyrir áhættunni og e.t.v. án þess að vita hvað til þurfti. Hvað líður traustleika þessara bygginga? Í ljósi þessa sem ég hef nú sagt hef ég lagt fram á þskj. 609 svohljóðandi fsp. til hæstv. dómsmrh.:
    ,,Hefur farið fram eða er fyrirhuguð úttekt á byggingum á helstu jarðskjálftasvæðum landsins?``
    Mér er ljóst að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða en það er svo mikið í húfi fyrir fólkið á þessum svæðum að vita hvar það stendur og hvað er til ráða að þess vegna leyfi ég mér að bera fram þessa spurningu í trausti þess að staðan verði almenningi ljósari að loknum svörum hæstv. ráðherra.