Happdrætti
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það ríkir allskrautlegt ástand á þessum svokallaða happdrættismarkaði. Þar hefur verið mikil samkeppni og fleiri og fleiri aðilar viljað komast inn á þennan markað. Það hefur hins vegar komið fram í því að nýir aðilar hafa tiltölulega engar tekjur fengið út úr þátttöku í happdrættum vegna þess að mikill huti teknanna fer í kostnað, svo sem auglýsingar og undirbúning.
    Það er með þennan markað eins og annan að hann er takmarkaður og eftir því sem fleiri fara inn á hann, þá er líklegra að megnið af tekjunum fari til að standa undir kostnaði en ekki til að standa undir þeim mikilvægu málum sem ætlunin er að standa undir, svo sem eins og líknarmálum, íþróttamálum og björgunarmálum, svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt mætti að sjálfsögðu nefna starfsemi stjórnmálaflokka sem ég tel ekki síður mikilvægt.
    Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að í dómsmrn. er unnið að undirbúningi frv. til laga um happdrætti og það var ætlunin að þetta frv. kæmi fram á þessu þingi. Það liggja fyrir drög að slíku frv. en því miður er þessu verki ekki lokið. Það er gert ráð fyrir því að það muni geta tekist að leggja frv. þetta fram í upphafi næsta þings og er að því stefnt. En efni þessa frv., eins og það liggur fyrir, hefur enn ekki verið kynnt utan ráðuneytisins, en að því verður unnið í þinghléi.