Staða ríkissjóðs
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir greið svör. Ég ítreka það, sem reyndar kom einnig fram í máli hæstv. fjmrh., að það er mjög mikilvægt að þjóðþingið fylgist mjög náið með þróun mála hvað varðar framkvæmd fjárlaganna og er mjög gott að þingið fái tíðar skýrslur um það frá hæstv. fjmrh. Vil ég taka undir það sem hann sagði að það eru ágætis vinnubrögð að okkur þingmönnum séu afhentar reglulega skýrslur um stöðu ríkissjóðs og framkvæmd á fjárlögum.
    Ég vona svo sannarlega að þær tölur sem komu hér fram í svari hæstv. ráðherra séu réttar þannig að það megi draga af þeim þá ályktun að staða ríkissjóðs um þessar mundir sé góð og vonandi verður svo áfram. Hins vegar væri nauðsynlegt fyrir okkur hv. alþm. að fá fregnir af því um leið og það gerist að það eru einhver teikn á lofti sem benda til þess að farið sé að síga á ógæfuhliðina hvað ríkissjóð varðar.