Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 841, sem er 473. mál þingsins, er fsp. til fjmrh. um bókun í kjarasamningi ríkisins við Landssamband lögreglumanna. Þessa fsp. legg ég fram ásamt Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur og hún orðast svo:
    ,,Hefur ríkissjóður staðið við bókun í samningi ríkisins við Landssamband lögreglumanna frá 22. maí 1987 er kveður á um að Hagstofa Íslands reikni út og endurskoði launakjör lögreglumanna?``
    Ástæða þessarar fsp. er sú mikla óánægja sem fram hefur komið hjá lögreglumönnum um það að þeir hafi verið píndir til þess að afsala sér verkfallsrétti gegn því að Hagstofan reiknaði út launakjör þeirra og að þeir skyldu fylgja ákveðnum starfsstéttum að launum og hafa sömu kjör og þær stéttir. Þeir telja að ríkið hafi einhliða ákveðið að reikna þetta sjálft út en ekki falið Hagstofunni þetta eins og segir skýrlega í þeirri bókun sem hér var vitnað til. Og ég vil sem sagt spyrja hæstv. fjmrh. hvort það hafi verið staðið við þessa bókun og hvernig standi á því að það hefur ekki af hálfu ríkisins verið staðið við þetta.