Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá embættismönnum fjmrn., þá eru þeir eindregið þeirrar skoðunar að að fullu hafi verið staðið við þann samning sem gerður var við lögreglumenn og þær bókanir sem honum fylgdu. Hins vegar kom í ljós við framkvæmd þessa samkomulags að á því voru ágallar sem snertu öflun upplýsinga og skyldur samningsaðila í þeim efnum. E.t.v. hefur eitthvað skort á það að samningsaðilar ræddu nægilega mikið saman um þessa ágalla þannig að upplýsingaöflunin fór ekki fram með nægilega skipulegum hætti og viðræður urðu ekki nægilega ítarlegar til þess að leysa úr þeim vandkvæðum. Þetta hvort tveggja gerði það að verkum að málin þróuðust yfir í form deilu sem e.t.v. hefði verið hægt að komast hjá ef báðir aðilar hefðu í tæka tíð gert sér skýra grein fyrir þessum mismunandi skilningi á eðli upplýsinga og hver það væri sem ætti að afla þeirra eða skapa þær upplýsingaforsendur sem nauðsynlegar væru.
    Hins vegar hafa núna síðustu daga staðið yfir viðræður við Landssamband lögreglumanna og mér er tjáð að þær hafi skilað góðum árangri hvað úrbætur snertir og þess vegna séu allar horfur á því að þessum viðræðum geti lokið næstu daga með samkomulagi aðila þannig að sá leiði misskilningur, sem verið hefur að undanförnu í þessu máli, tilheyri sögunni.