Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa komið fram hér í þingsölum allmörg mál, þáltill. og frv., sem varða breytingar og endurbætur á almannatryggingalögum. Öll hafa þessi þingmál verið nauðsynjamál, sprottin af augljósum þörfum á breytingum og bótum á gömlum lagagreinum og einnig og ekki síður vegna vöntunar á lögum um ýmis atriði, vöntunar sem hefur smátt og smátt komið í ljós eftir því sem lengur reynir á lögin um almannatryggingar. Þessi löggjöf er að vísu góð en ekki fullkomin fremur en önnur mannaverk og í tímans rás hefur reynst nauðsynlegt að sníða af henni agnúa og auka hana og bæta.
    Ég vil minna á mál sem við þingkonur Kvennalistans höfum borið fram hér á þingi, svo sem um lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra, frv. þess efnis að almannatryggingar taki þátt í gleraugnakostnaði fyrir fólk og um greiðslu ferðakostnaðar fyrir sjúklinga og fylgdarmenn, svo og sjúkradagpeninga ef samlagsmaður verður að leggja niður vinnu vegna langvarandi veikinda barns, maka eða foreldris og fleira mætti vafalaust telja frá öðrum þingmönnum líka. Oft hafa viðtökur þessara mála og annarra verið þær af hálfu ríkisstjórnarinnar að vísað hefur verið til þess að yfir standi endurskoðun á lögum um almannatryggingar og muni þessi þingmál þá verða skoðuð í samhengi við það.
    Mér er ekki kunnugt um hve lengi, en örugglega á annan áratug hafa þessi lög verið í endurskoðun og nú gerast ýmsir langeygir eftir úrbótum á brýnum réttlætismálum og því hef ég leyft mér á þskj. 812 að leggja fram fsp. til hæstv. heilbrmrh. um endurskoðun laga um almannatryggingar:
    ,,Hvenær má vænta þess að lokið verði heildarendurskoðun laga um almannatryggingar?``
    Og ég vil bæta við frá eigin brjósti utan fyrirspurnarinnar: Hvenær má vænta þess að fyrir liggi frv. til nýrra, breyttra og bættra laga um almannatryggingar?