Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég er hér með örlitla bók sem heitir ,,Nokkur orð um stjórnmál`` og er vitnað þar til merkra manna og mig langaði, með leyfi forseta, að vitna hér í orð Bertrands Russell: ,,Vísindamennirnir leggja hart að sér til að gera hið ómögulega mögulegt og stjórnmálamennirnir leggja hart að sér til að gera það mögulega ómögulegt.``
    Ég held að við séum í raun og veru að tala um hið ómögulega, þ.e. að ætla okkur að ljúka því sem eftir er að gera á þessum vetri á þeim fjórum vinnudögum, ef við teljum a.m.k. annan laugardaginn með, sem eru þá til þingloka. Ég veit ekki hvernig á að taka þær upplýsingar sem hafa komið fram í máli hæstv. forseta, ef ég skil hana rétt, að það hafi ekki komið fram neinar áhyggjur hjá forsetum þingsins í þessu efni að okkur takist að ljúka afgreiðslu þeirra mála sem við höfum alla vega haldið að væri lögð áhersla á á þessum örfáu dögum.
    Ég leyfi mér að fullyrða að stjórnarandstaðan hefur ekki látið sinn hlut eftir liggja. Fulltrúar stjórnarandstöðu hafa unnið vel og gert sitt til þess að greiða fyrir málum stjórnarflokkanna. Ég verð því miður að lýsa því hér að ég get ekki sagt hið sama um stjórnarflokkana og ég ræddi það einmitt í máli mínu hér í útvarpsumræðunum í gær hvers konar vinnulag okkur er boðið upp á. Ég vil ítreka að ég tel ekki sæmilegt og ekki viðunandi fyrir þingmenn stjórnarandstöðu að sætta sig við þetta vinnulag og þá lítilsvirðingu sem stjórnarflokkarnir sýna þeim málum sem okkur þykja mikils virði. Þetta er í mínum huga þeim mun undarlegra sem mörg þessi mál sem við berum fyrir brjósti og við höfum borið fram eru óumdeilanlega hin mestu sanngirnismál og njóta í raun og veru velvildar. Það er því bersýnilega viljaskortur sem ræður.
    Ég efast ekkert um góðan og sterkan vilja hæstv. forseta til þess að halda starfsáætlun hér. Sá vilji hefur komið fram hvað eftir annað með nokkuð eftirminnilegum hætti. Ég held að það sé hins vegar afskaplega erfitt að skipuleggja tímann sem eftir er þannig að þetta takist og það er enn fremur afskaplega erfitt fyrir hv. þm. sjálfa að skipuleggja tíma sinn í náinni framtíð með þessu vinnulagi sem hér er boðið upp á. Ég hef sjálf lýst mig reiðubúna til að víkja einkaþörfum til hliðar til að greiða fyrir mikilsverðum málum frá ríkisstjórninni og frá öðrum þingmönnum að sjálfsögðu. Við hljótum hins vegar að áskilja okkur rétt til sömu tillitssemi af hálfu annarra þingmanna og að mál sem við teljum brýn fái sömuleiðis verðuga umfjöllun og afgreiðslu í nefndum. Það hlýtur að vera nákvæmlega jafnauðvelt eða erfitt eftir atvikum að greiða fyrir frumvörpum í gegnum allan þann feril sem þau þurfa að fá í þinginu hver sem ber þau fram.
    Í tilefni af þessari umræðu vil ég leggja það til við hæstv. forseta að forsetar þingsins og formenn þingflokka haldi fund eigi síðar en í dag til þess að reyna að komast að samkomulagi um þinghaldið til þingloka og komast að niðurstöðu um það hvenær þau geta orðið.