Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Það var út af ummælum hv. 1. þm. Suðurl. um að ríkisstjórn hefði ekki sérstök forgangsverkefni eða mál á dagskrá. Auðvitað er það svo að þessu sinni eins og jafnan áður og hlýtur svo að vera. Mér kemur á óvart ef hæstv. forsrh. hefur ekki rætt það eitthvað við forseta þingsins, þó svo það kunni að vera að ekki hafi verið kveðið á um nýjar dagsetningar og starfsáætlun þingsins sé því enn í gildi. Það hefur verið rætt við ríkisstjórnarborðið að við viljum auðvitað koma fram nokkrum málum. Það er einnig rétt, sem kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, að það er viðtekin starfsvenja í Alþingi að um það sé a.m.k. haft gott samráð milli ríkisstjórnar, stjórnenda þingsins og bæði stjórnarliða og stjórnarandstæðinga hvernig mál ganga fram í þinglokin og hvenær þinglausnir fara fram. Ég ætla ekki að taka að mér að gerast neinn umboðsmaður í því efni eða setja fram sérstakan málalista. Ég leyfi mér þó að álíta að það hljóti að verða gert einhverja næstu daga þar sem aðeins fáir dagar lifa eftir af þingstörfum, hvort sem þinglausnir verða á laugardag eftir rúma viku eða ef um það næst samkomulag að hliðra þeim til um einhverja daga. En tíminn styttist og er ljóst að það verður að fara að koma fram hvaða mál það eru sem þurfa að fá afgreiðslu. Ég leyfi mér að fullyrða að þannig hagi til með nokkur mál sem ríkisstjórnin mun vilja leggja á áherslu umfram önnur.