Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að við erum hér á þingfundi og þannig var staðan í þinghúsinu þar til fyrir hálfri mínútu síðan að til fundarins voru komnir 31 þm., þar af voru 17 stjórnarandstæðingar en 14 stjórnarþingmenn. Það breyttist fyrir hálfri mínútu síðan. Þá urðu stjórnarsinnarnir 15 en stjórnarandstæðingar voru enn 17. Ég vildi að þetta kæmi fram. Hér höfum við þrjá ráðherra af níu þegar við erum að ræða mál og komið er að þinglokum. Eins og einhver sagði þá er það kannski bara dálítið stórt hlutfall, 3 af 9, miðað við það sem stundum hefur verið að undanförnu. ( Gripið fram í: Það er met.) Það er met, er kallað, kannski nóg til þess að komast í Guinness-bókina.
    Ég tek undir það sem hæstv. forseti sagði nú rétt áðan að skynsamlegustu vinnubrögð þessa dags eru forsetafundur með formönnum þingflokka og forsrh. Eins og kom fram hjá hæstv. heilbrmrh. þá liggur fyrir af hálfu ráðherranna að það séu forgangsmál. Það hefur alltaf gerst við þinglok. Það er óvenjulegt þegar verið er að tala um þinglok þann 6. maí nú í lok apríl að þingflokkunum skuli ekki hafa verið gerð grein fyrir því hvaða málefni það eru sem ríkisstjórnin óskar eftir að löggjafarsamkoman afgreiði fyrir þinglok. Ég get vel fallist á það með virðulegum forseta að það er auðvitað þingsins að segja til um það hvaða mál það eru sem þingið vill afgreiða. Það hafa hins vegar alltaf verið talin eðlileg og góð vinnubrögð að ríkisstjórnin legði fram hvaða óskir hún hefur og svo sér þingið til hvernig og hvort hægt er að afgreiða hlutina. Það gerist ekki nema skipulag sé á vinnubrögðum.