Erfðalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á erfðalögum, nr. 8/1962, með síðari breytingum. Nál. er frá allshn.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Til viðræðna kom Skúli Guðmundsson, fyrrv. deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Um er að ræða breytingu á gildistökuákvæði frv. auk þess sem tvær frumvarpsgreinar eru lagfærðar.
    Eins og fram kemur eru þær breytingartillögur sem fluttar eru á þskj. 939, nema gildistökuákvæðið, tæknilegs eðlis. Við 3. gr. er orðalagsbreyting. Við 15. gr. er gildistöku frv. breytt til 1. júní 1989. Það var við nánari athugun talið hentugra fyrir framkvæmdina að tími gæfist til undirbúnings gildistökunni. Og við 16. gr. eru breytingar á tilvitnunum sem eru eingöngu lagatæknilegs eðlis.
    Undir nál. rita Jón Kristjánsson, Kristín Halldórsdóttir, Kristinn Pétursson, Guðni Ágústsson, Geir Gunnarsson og Friðjón Þórðarson.