Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Upphaflegt stjfrv. var flutt á sínum tíma og lagt fram á hv. Alþingi með orðunum í 6. gr. frv. ,,á óréttmætan hátt``. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu gerðist það að meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. lagði til á þskj. 551 að þessi grein breyttist og tók þá út þessi þrjú orð. Þeir hv. þm. sem stóðu að því voru Páll Pétursson, Ragnar Arnalds og Árni Gunnarsson. Það kemur ekki fram að nefndin hafi verið sammála því að minni hlutarnir skiluðu séráliti, þar á meðal á þskj. 552 þeir hv. þm. Matthías Bjarnason og Hreggviður Jónsson og ef ég man rétt ... ( Viðskrh.: Það var einróma álit Ed. Það er það sem ég var að segja.) Ég veit hvað ég er að segja, en ráðherra verður að átta sig á því hvað hann er að segja. Á þskj. 554 kom sérálit frá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur þar sem fram kom það sjónarmið að vísa bæri þessu frv. til hæstv. ríkisstjórnar. Frv. fór síðan eins og lög gera ráð fyrir til Ed. Þar breyttist þetta mál eins og fram kemur í minnihlutaáliti 1. minni hl. á þskj. 848, en undir það rita þrír hv. stjórnarþingmenn, þeir Eiður Guðnason, Valgerður Sverrisdóttir og Jóhann Einvarðsson, og flytja síðan sömu þingmenn, þessi 1. minni hl., þ.e. hv. stjórnarþingmenn, á þskj. 849 brtt. sem gengur í þá átt að færa frv. til upphaflegs horfs hvað snertir 6. gr. þess. Minni hl. hins vegar, þrír þingmenn, þeir hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, Halldór Blöndal og Júlíus Sólnes, skilaði séráliti og voru þeir þess vegna ekki aðilar að þessari brtt.
    Nú kemur í ljós að hv. talsmaður fjh.- og viðskn. Nd. skýrir hér frá því, að manni skilst í nafni meiri hl. nefndarinnar, að hann telji enn að þessi orð eigi að detta út. Enginn rökstuðningur, ekki eitt einasta orð. Samt hefur nefndin haft þetta mál til meðferðar í nokkra daga eða frá því að það kom frá hv. Ed. og nú stendur upp hæstv. viðskrh. og telur að upphaflegt orðalag eins og það kom fram í stjfrv. sé eðlilegra eftir að það þetta hafi verið skoðað af hinum færustu lögfræðingum. Ég tel og hef ávallt talið að upphaflegt orðalag sé eðlilegt. Það er í stíl við orðalag í þeim greinum sem hafa verið áður í gildi í íslenskum rétti að ég best veit og varða misneytingu og okur og ég sé enga ástæðu til að breyta því orðalagi eins og upphaflega gerðist í hv. fjh.- og viðskn. Nd. á sínum tíma. Hins vegar kunna að vera rök til þess, en þá verða þau rök að koma hér skýrlega fram. Annars, ef nefndin er ekki tilbúin til þess, vil ég beina því til hæstv. forseta að hann gefi nefndinni tóm til að átta sig á málinu þannig að það komi ekki bara fram álit heldur álit með rökstuðningi þegar um það er að ræða að hv. stjórnarþingmenn í Ed. og Nd. geta ekki komið sér saman um orðalag á borð við þetta. Hitt er svo annað mál að það leikur vafi á því og ég hygg að það sé sjaldnast sem mundi reyna á þetta því að þessi orð eru sett fyrst og fremst inn til öryggis, en jafnframt til að undirstrika að þarna er átt við það þegar um ólögmætt eða óréttmætt athæfi er að ræða, en ef þau orð eru tekin út hlýtur lögskýrandinn, dómstólar væntanlega, að taka tillit til þess og gæti

þess vegna skýrt greinina víðari skilningi en gert var þegar um samsvarandi ákvæði var að ræða í íslenskum lögum sem ég hygg að séu bæði í samningalögum og eins í sérstökum okurlögum á sínum tíma. Ekki veit ég hvort það ákvæði er enn í gildi, en mér finnst það vera alveg út í bláinn að formaður fjh.- og viðskn., hv. þm. Páll Pétursson, komi hér í ræðustól og segi að hann sé ósammála þessu án þess að það komi einn punktur af rökstuðningi þar um. Ég fer fram á það að hv. þm. geri a.m.k. grein fyrir því hvers vegna hann vilji breyta þessu ákvæði því að þetta getur haft þýðingu verði um dómsmál að tefla í framtíðinni. Ég er fús fyrir mitt leyti að veita hv. þm. og þeim sem starfa með honum í nefndinni tækifæri til að kanna þetta mál betur ef þeir hafa ekki fundið rökstuðninginn eða gleymt honum frá því að málið var til umræðu í Nd. á sínum tíma. Ég skora á hæstv. forseta að gefa þessum ágætu þingmönnum tóm til þess að kanna mál sitt betur. Hitt er svo annað mál að hv. þm. er venjulega stuttorður í ræðustól og kannski hefur hann ekki álitið sig þurfa að koma fram með rökstuðning, en hafi hann í pokahorninu. Sé svo óska ég eftir því að hv. 1. þm. Norðurl. v. komi upp og geri hv. deild skýra grein fyrir því hvaða rök eru að baki því að breyta þessu ákvæði sem getur haft áhrif á íslenskan rétt.