Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Það er afar vafasamt fyrir verkfræðing að blanda sér í deilur hálærðra lögfræðinga, en þó þykir mér rétt að skýra frá kynnum mínum af þessu máli 1986--1987 þegar frv. var undirbúið. Þá hnaut ég um þetta orðalag og mér þótti afar einkennilegt að segja þyrfti í lögum að ef hluturinn væri gerður ,,á óréttmætan hátt`` væri hann ólöglegur, þá skyldi maðurinn sæta sektum.
    Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni. Mér fannst þetta afar óljós texti og ég óskaði eftir skýringum og gekk afar illa að fá skýringar, mjög illa, frá ýmsum lögfræðingum. Lokaskýringin var eiginlega sú að þetta væri í dönskum lögum og þess vegna ætti þetta að vera með. Og ég gafst upp.