Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Árni Gunnarsson:
    Herra forseti. Þetta er orðin nokkuð löng umræða um eitt orð. Engu að síður held ég að það þurfi að koma mjög skýrt fram af hverju fjh.- og viðskn. Nd. vildi þetta orð í burtu. Eftir miklar umræður taldi nefndin orðið ekkert erindi eiga inn í þennan texta og kannski er meginástæðan vegna spurningar hv. þm. Friðriks Sophussonar sú að þarna má gagnálykta og spyrja hvort þá megi á réttmætan hátt hagnýta sér fjárþröng af ásetningi eða með stórfelldu gáleysi, þ.e. það sé á réttmætan hátt hægt að pretta fólk.
    Í öðru lagi er túlkunin á orðinu ,,óréttmætan`` afskaplega flókin. Nefndin taldi að ef það ætti að vera túlkunaratriði lögfræðinga hvað væri ,,óréttmætt`` í flóknum viðskiptum af því tagi sem hér um ræðir gæti það orðið til þess að drepa málinu á dreif, þ.e. að ónýta þennan lagatexta að mjög verulegu leyti. Ég held einnig að orðið ,,óréttmætur`` gefi til kynna að það verði siðferðilegt mat sem verði að leggja á málið. Við getum líka hugsað okkur að þarna hefði verið á óréttlátan hátt sem auðvitað er ekkert lagamál. Ef þarna hefði staðið ,,á ólöglegan hátt`` hefði málið horft öðruvísi við og nefndin hefði líklega ekki gert neina athugasemd við slíkt orðalag.
    Herra forseti. Ég legg eindregið til að þetta orð verði fellt út. Það þjónar nákvæmlega engum tilgangi í þessum lagatexta eins og hann er.