Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Árni Gunnarsson:
    Herra forseti. Það hafa fleiri þingmenn en hv. efrideildarmenn í fjh.- og viðskn. borið þetta atriði undir lögfræðinga. Það hef ég gert. Ég hef rætt þetta við lögfræðing sem ekki er ómerkari en þeir sem efrideildarmennirnir hafa átt viðtöl við og sá sagði mér að þetta orð væri með öllu óþarft í greininni.
    Við skulum ekkert fara í launkofa með hvað við erum að ræða um hér. Við erum að ræða um affallaviðskipti og við erum að ræða um það hversu langt megi ganga í affallaviðskiptum. Ef orðin ,,á óréttmætan hátt`` eru inni í þessari grein er það úrskurðaratriði lögmanns eða dómara hverju sinni hvað er óréttmætt. Greinin er miklu afdráttarlausari án orðanna ,,á óréttmætan hátt`` þannig að þar fer ekkert á milli mála að það er hægt að sækja mann til saka af hann af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hagnýtir sér fjárþröng viðsemjanda síns. Með því að setja orðin ,,á óréttmætan hátt`` inn í greinina verður það úrskurðaratriði, túlkunaratriði dómara eða lögmanns á hverju stigi málsins hvort verknaðurinn, hvort kaupin, affallaviðskiptin hafi átt sér stað ,,á ólögmætan hátt``. Þetta hlýtur að vera það sem greinin snýst um. Það er ekki nokkur spurning um það. Að spyrja þeirrar siðferðilegu spurningar hvort eitthvað hafi verið gert á óréttmætan hátt hlýtur að vera túlkunaratriði vegna þess að orðið ,,óréttmætt`` er ákaflega óglöggt í þessu máli og segir í raun og veru sáralítið. ( FrS: En hugtakið ,,stórfellt gáleysi``?) Ja, það segir mikið að mínu mati. Stórfellt gáleysi í viðskiptum er þess eðlis að það hlýtur að liggja ljóst fyrir hvort gáleysi hefur átt sér stað eða ekki. Það er engin spurning um það. Spurningin snýst um það í þessu máli hvort við ætlum að gefa þeim sem stunda þessi viðskipti lausan tauminn í því að fara sínu fram m.a. í affallaviðskiptum. Um það snýst þetta mál, ekkert annað.
    Við skulum ekki leyna því hvert fyrir öðru um hvað þetta snýst. Þeir sem vilja gefa þeim algerlega lausan tauminn vilja hafa þetta orðalag í greininni, hinir ekki. Um það snýst málið.