Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ef ég hef verið í einhverjum vafa um það áður en þessi umræða hófst hvernig ég ætti að greiða atkvæði, sem ég var að vísu ekki, hefur hv. þm. Guðmundur Þórarinsson sannfært mig. Hann sagði að vísu að hann skildi ekki ,,á óréttmætan hátt``. En hann sagði líka annað. Hann sagði að ef þetta væri tekið út væri það til þess að þyngja og gera ákvæðið ótvíræðara. Hann sagðist ekki skilja það, en skildi það þó og sagði það hér í ræðustól. Það er málið. Þeir sem vilja halda þessu inni vilja hafa þessa grein þannig að lögfræðingar hafi möguleika til að milda eða leggja til að milda slíka glæpi sem framdir eru þegar menn notfæra sér neyð annarra í þessu efni. Það er ákaflega gott að það komi fram í þessum umræðum hverjir það eru sem vilja halda hlífðarskildi yfir slíku atferli.