Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Þetta er orðin nokkuð skrautleg umræða, en í sjálfu sér aðeins framhald eða stækkuð útgáfa af þeirri umræðu sem þegar hefur farið fram í nefndinni. Því það er ekki rétt ef einhverjir kynnu að halda það að við höfum ekki rætt þetta í fjh.- og viðskn. Við ræddum það þegar við fyrstu umfjöllun um málið og þetta kom einnig fram í umræðum hér í deildinni. Og ég hélt að öllum væru ljós rökin á bak við það hjá okkur sem vildum og studdum það að þessi orð væru felld burtu. Engu að síður tel ég að þessi umræða um fyrst og fremst orðið ,,óréttmætur`` eða ,,á óréttmætan hátt`` sé fyllilega réttmæt.
    Það er töluvert talað um hugtök og nauðsyn þess að menn skilji hugtök í lagatexta. Því miður þekkjum við það að lagatexti getur vafist fyrir jafnt verkfræðingum, lögfræðingum og jafnvel bara húsmæðrum og það er margt sem hefur orðið til þess að vekja vangaveltur. Ég minnist þess t.d. þegar við vorum með lagabálk til umfjöllunar í vetur að ég velti töluvert fyrir mér og spurði eftir því hvað þýddi --- ég man ekki nákvæmlega hvaða ákvæði það var, en það var eitthvert ákvæði sem gat átt við í ákveðnum tilvikum eftir því sem við gat átt og skilji nú hver sem vill. En þessi texti hafði staðið í lögunum alllengi og þótti ekki ástæða til að breyta því.
    Það sem mér fannst athyglisverðast í þessari umræðu áðan var að hér töluðu tveir hæstv. ráðherrar. Hæstv. forsrh. kom upp og upplýsti að þessi orð hefðu vafist fyrir honum þegar þessi lög voru til umfjöllunar fyrir nokkrum árum og hann hefði ekki fengið skýringar á nauðsyn þessara orða og eftir því sem ég skildi hann best var hann heldur ekki búinn að öðlast neitt ríkari skilning á því hvers vegna þau þyrftu hér að vera og um leið þótti mér hann ekki færa nein rök fyrir máli sínu. Það þótti mér líka skorta í máli hæstv. viðskrh. sem færði þau ein rök fyrir sínu máli, þ.e. að þessi orð ættu að vera, að þau hefðu verið inni þegar hann lagði frv. fram og frekari rök var ekki að heyra. Rökin hefur sem sagt algerlega skort af hálfu þeirra sem vilja halda þessum orðum inni. Þau eru nánast ,,af því bara`` og af því bara þau hafa verið áður inni. En rök okkar sem viljum að þau fari út eru að mínum dómi afar skýr. Þessi orð, að hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hagnýtir sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns o.s.frv., sem gefur þá til kynna eins og hefur komið fram í máli manna að það sé hægt að hagnýta sér hann á réttmætan hátt, opna sem sagt glufu að okkar dómi, þau opna glufu fyrir það að túlka lögin þannig að það sé hægt að hagnýta sér fjárþröng manna á einhvern óskilgreindan hátt. Við viljum loka þessari glufu og það eru rökin.