Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Hér hafa óneitanlega spunnist allforvitnilegar umræður í tilefni af ósköp sakleysislegri fyrirspurn sem ég leyfði mér að gera um þetta mál. Verð ég að segja að menn eru sennilega litlu nær þótt sameiginlegir kraftar allra verkfræðinga þingsins, ( Forsrh.: Hagfræðinga.) auk sprenglærðra lögfræðinga og einstaka hagfræðings hafi hér verið lagðir saman.
    Ég ætla ekki að blanda mér í efnisumræður um þetta. Ég hef tilhneigingu til að taka undir sjónarmið hv. 10. þm. Reykv. Guðmundar G. Þórarinssonar, en ég vil sérstaklega mótmæla því sem fram kom í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. og vekja á því athygli að virðulegur þingmaður Páll Pétursson skuli núa samflokksmanni sínum því um nasir að með því að hafa þá afstöðu sem hann hefur hér kynnt sé hann að ganga einhverra sérstakra erinda okraranna í landinu og gæta hagsmuna þeirra. Mér finnst alveg fyrir neðan allt velsæmi hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að bera þetta upp á sinn flokksbróður. ( PP: Ég var nú fyrst og fremst að tala við þig.) Ég talaði ekki efnislega um þetta mál eins og hv. þm. er kunnugt.
    En ég vildi gjarnan í tilefni af þessum forvitnilegu og stórkostlega upplýsandi fræðilegu umræðum hér í þinginu beina því til þingmanna og ekki síst hv. þm. Páls Péturssonar að hann útskýri fyrir mér sem sérstakur áhugamaður um þessa grein hvað orðin ,,umlíðun skuldar`` þýða og gefa okkur jafnfræðilega, greinargóða og glögga útskýringu á því máli svo að við getum rætt það hér næsta klukkutímann eða svo.