Vaxtalög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Herra forseti. Ég vil enn á ný vekja athygli á því að við erum að fást við talsvert alvarlegt mál. Við erum að fást við lagagrein sem felur í sér að ef borgarar þessa lands brjóta hana eru viðurlögin refsivist eða fangelsi m.a. Auðvitað hlýtur það að vera alveg lágmarkskrafa borgaranna að löggjafinn sem setur slík lög viti hvað þau þýða, að löggjafanum sé ljóst ef hann er að fara fram á slíka refsingu borgaranna við ákveðnu broti hvaða brot það er sem leiðir til slíkrar refsingar. Það hlýtur að vera algerlega föst krafa að löggjafinn viti hvað lögin sem hann er að setja þýði. Þetta finnst mér fyrsta atriðið, að menn geri sér grein fyrir því hvað þetta þýðir. Hvernig eiga borgarar þessa lands að lifa sínu lífi eftir þeim lögum sem sett eru ef engum er ljóst hvað lögin þýða og ef menn ætla að láta einhverja dómara, sem stundum eru misvitrir menn líka, giska á hvað löggjafinn hafi meint með þeim lögum sem hann er að setja? Þetta finnst mér grundvallaratriði.
    Ef menn fella niður þessi orð ,,á óréttmætan hátt`` hef ég tilhneigingu til að skilja þetta á svipaðan hátt og hv. þm. Árni Gunnarsson, þ.e. að ef um er að ræða lán, við skulum einfalda þetta, sem er með vexti eða þóknun umfram það sem viðskiptabankar og sparisjóðir taka, geti viðkomandi aðili sætt sektum, varðhaldi eða fangelsi. Þá verða menn að gera sér grein fyrir hvað þeir eru að ákveða.
    Ég verð að játa að ég er dálítið ringlaður í því þegar talað er um að hagnýta sér markað. Hvað þýðir það t.d. að hagnýta sér álmarkað þegar hann er í hæstu verði, að reyna að bjóða sem mest fram þegar kaupandinn þarf á sem mestu að halda? Hvernig kemur þetta allt saman?
    Við skulum segja að aðili sé kominn með húsið sitt á nauðungaruppboð. Hann getur hvergi fengið lán, en hann gæti selt skuldabréf og bjargað fjölskyldunni frá því að fara á götuna. Það getur vel verið og það er eðlilegt að vextir af fjárskuldbindingum séu tengdir því hversu öruggt veðið er, hversu mikil áhætta er í því að veita lán. Það getur vel verið að hann gæti fengið lánið með einhverjum afföllum sem þýddu þá raunvexti yfir það sem viðkomandi banki veitti. Með því gæti hann bjargað húsinu og fjölskyldu sinni og hann gæti líka selt bíllinn sinn á hálfvirði eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði til að koma í veg fyrir slíkt. Ég held að menn verði að gera sér alveg grein fyrir því, þeir sem ætla að greiða atkvæði á þennan hátt: Eru menn að tala um að það verði tugthúsmál ef vextir verða hærri en sparisjóðir og viðskiptabankar hafa ákveðið? Það finnst mér vera kjarni málsins. Og hvað þýðir það?
    Ég er einn af þeim sem hafa verið þeirrar skoðunar að það sé æskilegt að þróa fjármagnsmarkað hér á landi þó að ég sé alfarið þeirrar skoðunar að eftirspurn í þeim mæli sem hefur verið að undanförnu hafi fært þennan markað talsvert út á villigötur. Sú eftirspurn er ekki síður ríkisvaldinu að kenna án þess að ég fari nánar út í það. Ég gæti þó haldið um það langa ræðu. Þá er ég þeirrar skoðunar að menn þurfi

ekki lengi að skoða heimsbyggðina til að sjá að þar eru lífskjör best sem hagkerfið er frjálst. Menn þurfa ekki annað en bera saman austantjaldsríkin og iðnríki Evrópu. Þar sem hagkerfið er frjálst og ríkisafskiptin verða minnst eru lífskjörin best og í þeim löndum er fjármagnsmarkaðurinn þróaðastur. Ég verð þess vegna að segja að það stendur nokkuð í mér ef þessi lög þýða bókstaflega það sem ég hlustaði á hv. þm. Árna Gunnarsson segja og eins og hann skildi þau.
    Að öðru leyti held ég að það sé kannski ekki ástæða til að fjölyrða um þetta mál. Mér finnst það vera meginmál að löggjafinn sé ekki að setja lög sem hann skilur ekki nægilega vel sjálfur hvað þýða.