Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Frsm. heilbr.- og trn. (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 943 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, sem frammi liggur á þskj. 698 og er 372. mál þingsins. Hér er um að ræða í fyrsta lagi breytingu á ákvæðum um áfrýjunarrétt þeirra sem telja sig ekki hafa náð rétti sínum varðandi bætur almannatrygginga og jafnframt er í frv. ákvæði um skipan stjórnar sjúkrasamlaga og einnig breyting á ákvæðum um tilvísanir til sérfræðinga.
    Þetta mál hlaut meiri umfjöllun í nefndinni en litið gæti út fyrir, einkum og sér í lagi 2. gr. frv. vegna þess, eins og kom fram þegar talað var fyrir þessu máli, að þá lá fyrir þinginu frv., sem ég er flm. að, um breytingu á lögum um almannatryggingar varðandi áðurnefndan áfrýjunarrétt sjúklinga ef ágreiningur er um örorkumat.
    Við meðferð hv. heilbr.- og trn. varð það að samkomulagi, og við ráðherra einnig, að efnisatriði úr frv. sem liggur fyrir þinginu á þskj. 185, 171. mál þingsins, yrðu tekin inn í 2. gr. frv. sem ráðherra hefur lagt fram. Þess vegna lagði nefndin fram brtt., sem er að finna á þskj. 944, sem kveður svo á að ekki aðeins megi kalla til lækni ef ágreiningur er um örorkumat heldur hljóði greinin svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ef ágreiningur er lagður fyrir tryggingaráð til úrskurðar og úrlausn hans er að einhverju leyti eða öllu háð læknisfræðilegu, lögfræðilegu eða félagsfræðilegu mati er tryggingaráði hverju sinni heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá menn sem hafa sérþekkingu á hlutaðeigandi sviði.``
    Nefndarmenn urðu sammála um að hér væri komið til móts við þá kröfu að aðrir en tryggingayfirlæknir gætu fjallað um niðurstöðu á örorkumati, en ekki er gert ráð fyrir sérstakri nefnd eins og frv. mitt gerði ráð fyrir heldur er tryggingaráð áfram sá aðili sem fjallar um kvartanir þeirra sem telja sig ekki hafa náð fram rétti.
    Undir nál. skrifuðu Guðrún Helgadóttir, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Jón Kristjánsson og Guðmundur G. Þórarinsson, en Geir H. Haarde og Ragnhildur Helgadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ég lýsi því yfir að ég get sætt mig við þessa niðurstöðu og mælist til þess að hv. deild veiti þessu máli brautargengi eins og það liggur frammi núna.