Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Það er töluvert búið að ræða um þetta mál og þá þætti sem hér virðist vera nokkur skoðanamunur á, bæði nú og eins þegar málið var hér til 1. umr. Ég hélt að við hefðum þá komist að niðurstöðu um það sem við værum að gera með þessari breytingu, að kveða skýrar á um að tryggingaráð sé úrskurðaraðili ef ágreiningur rís um bótaréttinn. En það segir í grg. og hv. 3. þm. Reykv. las einmitt upp úr grg. áðan þar sem segir að þetta frv. sé flutt til þess að ekki orki tvímælis að tryggingaráð hafi ekki aðeins vald til að leysa úr ágreiningi um það hvort reglur laganna veiti rétt til greiðslu heldur einnig til að leysa úr ágreiningi um önnur skilyrði slíks réttar og hafi sér til fulltingis til þess að kveða upp slíkan dóm heimild til að kveðja til ráðuneytis, eins og frv. var lagt fram, einn til þrjá lækna, en eins og brtt. liggur nú fyrir sé heimilt að kveðja til aðra sérfræðinga á lögfræðilegu sviði og á félagsfræðilegu. Út af fyrir sig held ég að ekki sé ágreiningur um það.
    Spurningin er hins vegar þessi: Getur tryggingaráð haft áhrif eða breytt örorkumati sem slíku? Þá er spurningin: Hvað er örorkumat? Eins og lögin eru í dag óbreytt segir í 6. gr.: ,,Rísi ágreiningur um bætur leggur tryggingaráð úrskurð á málið.`` Þannig hljóðaði frv. óbreytt. En bætur breytast ekki eða réttara sagt örorkumat ræður bótum eða bótaupphæð og ef við ætlum tryggingaráði að hafa áhrif á bótaupphæð hlýtur það að vera með því að úrskurða um örorkumatið.
    Ég lít svo á að þegar tryggingaráð hefur kvatt sér til fulltingis lækna til að fjalla um læknisfræðilega matið sé það a.m.k. mjög ólíklegt að tryggingaráð kveði upp annan úrskurð en þann sem fram kemur hjá þeim sérfræðingum á læknisfræðilegu sviði. Annars vegar hefur tryggingaráð þá til hliðsjónar mat tryggingalæknanna og tryggingayfirlæknis og hins vegar þessara sérstaklega tilkvöddu lækna. En ef tryggingaráð á að vera úrskurðaraðili getur það ekki heldur verið algjörlega bundið af því.
    Ef um er að ræða breytingu frá þessum læknisfræðilegu niðurstöðum hlýtur tryggingaráð að verða að rökstyðja það mjög ítarlega og þá sjálfsagt með skriflegum rökstuðningi sem gæti síðan notast þeim sem hlut á að máli ef hann vill sækja rétt sinn annars staðar sem hann hefur auðvitað opið eftir sem áður, þ.e. fyrir dómstólum.
    En inn í þetta spilar fleira en bara læknisfræðilega matið eins og hér hefur komið fram. Það er félagslegur þáttur sem ætlast er til að tekið sé tillit til. Ég skil 12. gr. almannatryggingalöggjafarinnar eins og hún er svipað og Guðrún Helgadóttir, hv. 13. þm. Reykv., að þar sé ætlast til þess, enda vitum við að það er gert, að það séu teknir inn í örorkumatið fleiri þættir en hinir læknisfræðilegu.
    Svo langar mig aðeins að nefna það út af ábendingum hv. 6. þm. Norðurl. e. varðandi hvernig og hvar örorkumatið er framkvæmt að það hefur verið í umræðu áður að gefa mönnum kost á að fá sína

örorku metna annars staðar en hjá tryggingayfirlækni. Ég vil geta þess hér, nota tækifærið, að í sambandi við nýlega afstaðinn vorfund héraðslækna var þetta mál þar til umræðu meðal annarra umræðuefna og tengdist umræðu um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þegar og ef sú lagabreyting nær fram á þingi er þar um að ræða verulegar breytingar á ýmsum þáttum sem lúta að heilbrigðislöggjöf. Það þarf að skoða lög um heilbrigðisþjónustu í framhaldi af samþykkt verkaskiptafrumvarpsins og þá höfum við einmitt rætt að rétt væri að athuga sérstaklega hlutverk og hlutskipti héraðslæknanna. Reyndar var komið svo fyrir sl. áramót að til var frv. sem kvað á um að gera embætti a.m.k. tveggja héraðslækna að sjálfstæðum embættum. Kannski er nauðsynlegt að stíga það skref að þeirra hlutverk sé að vera embættislæknar hver í sínu umdæmi, héraðslæknisdæmi sem er nú reyndar sama og kjördæmin. Þá gæti einmitt fallið að þeirra verkefnum að fjalla einnig um örorkumat.
    Ég vildi að það kæmi fram að þessi umræða hefur verið í gangi og það verður tekið til athugunar í sumar við undirbúning að endurskoðun á lögum um heilbrigðisþjónustu, hlutskipti héraðslækna og þá hvort þeim bæri t.d. að gegna þessu hlutverki.