Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Það kemur fram greinilegur misskilningur að mér þykir í máli hv. 13. þm. Reykv. þegar hún segir að það sé í sjötta sinn sem þetta mál sé til meðferðar í þinginu. Þetta mál hefur ekki áður verið til meðferðar í þinginu þó að vikið hafi verið að sömu atriðum. Ég hef aldrei upplifað það fyrr að lagt væri til að það yrði leitt í lög að tryggingaráð breytti niðurstöðum læknisfræðilegs mats. Ég held því ekki fram að hér sé einungis um læknisfræðilegt atriði að tefla. Þó hefur hið endanlega mat verið læknisfræðilegt, en það byggir læknir á vissum félagslegum þáttum líka. Það er alveg ljóst.
    Hitt er annað mál að það stendur í brtt. sem liggur hér fyrir okkur að ef úrlausn málsins er háð læknisfræðilegu mati megi tryggingaráð kveðja sér til menn með sérþekkingu. Það er ekki einu sinni skyldugt til þess. Það er tekið fram. Ef það er háð læknisfræðilegu mati má kveðja sérfræðilega ráðunauta til ráðuneytis. Hin endanlega niðurstaða á úrlausnarefni sem er læknisfræðilegs eðlis verður því ekki byggt á öðru en læknisfræðilegu mati samkvæmt þessum lögum, ekki nauðsynlega. Það er ekkert í þessu orðalagi sem tryggir það.
    Ég er sammála hæstv. ráðherra þegar hann segir að það er langlíklegast að farið verði eftir ráðleggingum þess sérfræðings eða þeirra sérfræðinga sem tryggingaráð kveður til. En erum við ekki að setja lög til þess að við göngum svo frá málum að það sé ljóst hvað á að gera og hvað ber að gera? Annars væri alveg óþarft að setja hlutina í lög. Tryggingaráð hefur nú þegar leyfi til að kveðja til sérfræðilega ráðunauta. Það þarf ekki lagaákvæði til þess.
    Ég er sammála þeim sem segja að það þurfi að vera réttur til þess að áfrýja mati. Það er ósköp eðlileg meðferð mála og ætti að vera æskilegt fyrir alla, bæði þá sem framkvæma matið og þá sem þurfa sjálfir að fá þetta mat fyrir sig.
    Hugsum okkur að svo standi á að maður sé metinn 75% öryrki og eigi þess vegna rétt á fullum örorkulífeyri. Hann hafi hins vegar allverulegar tekjur, við skulum segja eignartekjur eða höfundaréttargjald, hann sé kannski rithöfundur, en alger öryrki til verka eins og komið er, þótt hann fái kannski jafnan greiðslur af sínu hugverki. Sú aðstaða þýðir það að maðurinn fær fullan örorkulífeyri en ekki tekjutryggingu. En ef tryggingaráð lítur svo á að sú staðreynd að maðurinn hafi einhverjar tekjur þýði að hann sé ekki öryrki, það er hugsanlegt að menn túlki þetta þannig, þá tel ég slíkt þó algerlega ranga túlkun og gersamlega fráleita. Þá er farið að rugla saman hinni læknisfræðilegu niðurstöðu og efnahag viðkomandi manns. Örorkumatið er ekki þess konar hugtak, það er ekki samanslungið af þessu tvennu. Það er örorkulífeyririnn og reglan um greiðslur hans sem er til þess að leysa úr þeim efnalega vanda sem almennt fylgir örorku. Því segi ég enn og aftur að mér þykja það vera heldur ábyrgðarlítil vinnubrögð að leita ekki umsagnar --- ja, við skulum segja Læknafélags Íslands. Hvað um læknadeild Háskólans?

Ég sé ekki að það þurfi endilega að koma í veg fyrir að við afgreiðum málið á þessu þingi.
    Mér er ekkert sérstaklega í mun að reyna að tefja málið einungis til að tefja. En mér er afar annt um að frá slíkum málum sé gengið með faglega og þinglega réttum og frambærilegum hætti til þess að tryggður sé hagur þeirra sem eiga um sárt að binda vegna örorku og líka tryggt að um þau mál sé fjallað með faglega réttum hætti. Hversu miklir ágætismenn sem sitja í tryggingaráði hverju sinni, þá er ekki unnt að fela þeim læknisfræðileg verk. Ég sé það ekki. Ef þeir vilja breyta þeim réttaratvikum sem verða til þess að menn fái rétt til lífeyris, segjum eins og í dæminu sem ég nefndi áðan, ef úrskurða ætti að maður sem fær kannski gjöld af bókinni sinni sé ekki lengur 75% öryrki, finnst mér það vera alveg sambærilegt við það að tryggingaráð ætti að úrskurða að maður sem er afskaplega hress og unglegur, en orðinn 67 ára og á þess vegna rétt á ellilífeyri, fengi ekki þennan ellilífeyri af því að hann er jafnhress og maður sem er 59 ára eða kannski jafnvel 65 ára, þá fyndist tryggingaráði ekki tímabært að löggilda hann sem gamalmenni eins og menn segja stundum að gamni sínu. Mér þykir ekki skynsamlegt að leggja þetta verk á herðar tryggingaráðs til viðbótar öllu sem það hefur í að snúast. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra taki undir það með mér að rétt sé að vísa þessu máli til þeirra aðila sem ég nefndi þannig að við getum afstýrt slysi í afgreiðslu þessa máls og þá knúið á um mjög skjót svör.
    Ég hef í máli mínu aðeins fjallað um þann þátt þessa frv. sem veit að örorkumati og hugsanlegum ágreiningi um það. Frv. fjallar vissulega um meira. Ég hef ekki minnst á annan verulegan þátt í frv. sem er heldur skringilegur líka að því er vinnubrögð varðar vegna þess að þar rekst ein grein á annað stjfrv. sem liggur fyrir. Megi stjórnin ráða fer það frv. í gegnum þingið og verður að lögum, en það er frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt því frv. á að afnema 38. gr. tryggingalaganna, en samkvæmt þessu frv. á að búa til nýtt orðalag á þessa sömu grein sem í öðru stjfrv. er lagt til að verði afnumin og allar horfur eru á að svo verði gert. Mér virðist algerlega ljóst að það er ekki tímabært, hvað sem við viljum flýta okkur, að afgreiða þetta í dag.