Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Ég hlýt að lýsa undrun yfir því að ég fæ engin viðbrögð við því að málinu sé frestað aðeins til frekari athugunar, þó ekki væri nema til næsta fundar, og þó stendur svo á að málið var afgreitt að okkur sjálfstæðismönnum fjarstöddum í nefndinni án þess að við hefðum hugmynd um að það ætti að afgreiða málið á þessum fundi og ekki leitað umsagnar og ekki kvaddir neinir til viðtals við nefndina. Mér þykja þetta heldur þjösnaleg vinnubrögð, verð ég að segja, og það kemur mér á óvart af hálfu jafnkurteiss og elskulegs manns og hæstv. heilbrmrh. að hann skuli ekki fallast á jafnsjálfsögð tilmæli og hér er um að ræða. ( Heilbr.- og trmrh.: Ég er ekkert á móti því.) Hæstv. ráðherra hefur ekki á móti því, það var gott, að þetta fari til umsagnar. Þá er það ljóst. Það liggur þá fyrir að hæstv. ráðherra hefur ekki á móti því að það sé fjallað nánar um málið og því leyfi ég mér að treysta því að málinu verði frestað þar til það hefur fengið frekari umfjöllun í nefndinni og unnt verði að kveðja til þá sem mesta sérþekkingu hafa á þessum málum, þá aðila sem ég nefndi áðan.