Almannatryggingar
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Frsm. heilbr.- og trn. (Guðrún Helgadóttir):
    Hæstv. forseti. Það eru til um þetta mál ótal umsagnir. Hv. 3. þm. Reykv. hefur á hverju ári haft á móti því að lausn fyndist á þessu vandræðamáli og raunar samflokksmenn hennar yfirleitt stöðvað það mál. Ég sá enga ástæðu til að biðja enn einu sinni um umsagnir um þessi atriði. Ég veit ekki hvern ætti að biðja um umsagnir. Allir þeir aðilar sem þetta mál varðar hafa látið álit sitt í ljós. Það er dagljóst að ef á að fara að krefjast þess að þetta mál verði enn einu sinni sent út til umsagnar nær það ekkert afgreiðslu á þessu þingi frekar en hinum fimm. Ég held að hv. alþm. verði einfaldlega að fara að taka um það ákvörðun hvort það ástand á að ríkja sem nú viðgengst eða hvort menn hafa döngun í sér til að stíga þetta mjög svo litla spor í þá átt að almenningur eigi rétt á því að áfrýja til tryggingaráðs. Þó að ég hefði kosið að það yrði frekar áfrýjunarnefndin sem mitt frv. gerði ráð fyrir held ég að þetta sé til bóta.
    Nefndin er búin að fjalla um þetta. Það er ekki við okkur að sakast þótt tveir hv. nefndarmenn væru ekki á þessum umrædda fundi. Okkur gekk það eitt til að reyna að koma málinu áleiðis á þessu þingi. Það á eftir að fara til meðferðar hv. Ed. Ég vildi gera það að málamiðlunartillögu að menn leyfðu málinu að fara út úr Nd. til meðferðar í Ed. Ég vænti þess að þar sé fulltrúi sem hv. 3. þm. Reykv. treystir fyrir málinu í þeirri nefnd. En að fara að stöðva málið núna þýðir einfaldlega að það verður ekki afgreitt á þessu þingi. Þess vegna get ég ekki fallist á að það gerist.