Umferðarlög
Föstudaginn 28. apríl 1989

     Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um frv. til laga um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið skriflegar umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Umferðarráði, bæjarfógetanum í Hafnarfirði, sýslumanninum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, framkvæmdastjóra hjá Vegagerð ríkisins, lögreglustjóranum í Reykjavík, sýslumanninum í Árnessýslu, sýslumanninum í Suður-Múlasýslu, sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu, sýslumanninum í Þingeyjarsýslu, sýslumanninum í Vestur-Skaftafellssýslu, sýslumanninum í Norður-Múlasýslu og sýslumanninum í Rangárvallasýslu.
    Þessar umsagnir mótuðust nokkuð af því hvernig aðstæður eru við þjóðveg nr. 1 í viðkomandi umdæmi varðandi umferðarþunga og legu vegarins. Flestar þeirra voru jákvæðar, nokkrar neikvæðar og í ljósi þeirra er nefndin sammála um að vegna mjög mismunandi aðstæðna og umferðarþunga sé óráðlegt að láta aðalbrautarrétt gilda um þjóðveg nr. 1 í öllum tilvikum. Hins vegar telur nefndin að rétt sé að gera úttekt á þessu máli með tilliti til aðalbrautarréttar og reyndar kemur fram í umsögn Umferðarráðs um málið að þeir telja afar æskilegt að slík úttekt sé gerð og því leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Undir nál. skrifa Jón Kristjánsson, Kristín Halldórsdóttir, Kristinn Pétursson, Guðni Ágústsson, Friðjón Þórðarson og Geir Gunnarsson.