Lagmetisiðnaður
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að það er brýn þörf á því að gera einhverjar ráðstafanir í sambandi við lagmetisiðnaðinn, sérstaklega í sambandi við sölu- og markaðsmál. Ég vildi gjarnan fá að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort nú þegar sé verið að vinna að því að stofna einhver ákveðin fyrirtæki eins og fram kemur í 1. gr. frv. til laga sem hér er til umræðu, en þar segir:
    ,,Heimilt er stjórn sjóðsins að leggja fram úr Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins hlutafé vegna stofnunar nýrra framleiðslu- eða markaðsfyrirtækja á sviði lagmetis ...``
    Ég vildi gjarnan vita hvort hér sé um einhver ákveðin fyrirtæki eða ákveðnar hugmyndir að ræða og þá vildi ég gjarnan vita hvaða aðilar þetta eru vegna þess að hér erum við að taka afstöðu af hálfu Alþingis til þess að heimila slíka þátttöku af hálfu hins opinbera. Einnig væri fróðlegt að fá að vita með hvaða hætti hæstv. ráðherra hugsar sér að Þróunarsjóður taki þátt í hlutafjáraukningu í starfandi fyrirtækjum í lagmetisiðnaði. Það væri fróðlegt að vita hversu víðtækt þetta á að vera og hugsanlega, ef ráðherra hefði svör við því, hvað hér er um mikla upphæð að ræða sem menn eru að hugsa um í sambandi við það að auka vöruþróun umfram það sem kom fram í máli ráðherra.
    Síðan vildi ég gjarnan, ef ráðherra hefði tiltækt svar við því, fá að vita hver sé staða Þróunarsjóðsins í dag, hver sé höfuðstóll eða hvað sé mikið í sjóðnum.