Umhverfismengun af völdum einnota umbúða
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Frsm. iðnn. (Karl Steinar Guðnason):
    Herra forseti. Iðnn. hefur fjallað um frv. og mælir með samþykkt þess. Jafnframt leggur nefndin fram nokkrar brtt. við frv. Það voru haldnir allmargir fundir um það og fengnir til viðræðu þeir Halldór Jón Kristjánsson og Páll Líndal frá iðnrn., Guðjón Jónsson, starfsmaður endurvinnslunefndar, Ingimar Sigurðsson frá heilbr.- og trmrn., Ágúst Þór Jónsson verkfræðingur, Davíð Ólafsson frá Félagi ísl. iðnrekenda og Ásgeir Einarsson frá Sindrastáli.
    Í brtt. eru pappírsvörur undanskildar og það er sett verðbreytingarákvæði í 1. gr.
    Í 2. gr. frv. var óbundin heimild ríkissjóðs til að gerast aðili að því hlutafélagi sem ætlunin er að stofna, en í brtt. er hlutafé sem ríkinu er heimilt að leggja í fyrirtæki bundið við 12 millj. kr. Er það reiknaður hlutur ríkisins í því fyrirtæki sem stendur til að stofna og er hlutafé áætlað samtals 30 millj.
    Þá er það nýtt að í 3. gr. er kveðið á um það að leitað verði samstarfs við þá aðila sem aðstöðu hafa til úrvinnslu umbúðanna finnist þeir aðrir en hlutafélagið.
    Samstaða er um þessar breytingar og skrifa allir nefndarmenn undir en Júlíus Sólnes var fjarverandi afgreiðslu málsins.
    Niðurstaðan er sú að mæla með samþykkt frv. og brtt.