Ríkisprentsmiðjan Gutenberg
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Örstutt athugasemd vegna þess sem fram kom í máli hv. 4. þm. Vesturl. Ég ætla ekki að endurtaka þau rök sem ég vísaði til í minni framsöguræðu. Þó ætla ég að telja upp nokkur mikilvæg atriði sem ég tel að styðji þá breytingu sem hér er gerð tillaga um.
    Það er í fyrsta lagi að jafnræði sé með fyrirtækjum sem stunda sama eða náskyldan rekstur, þau starfi við sömu skilyrði hvað varðar skatta og skyldur. Það er fyrsta atriðið.
    Í öðru lagi að einmitt vegna þess að þetta fyrirtæki hefur setið og situr því nær eitt að prentverkum fyrir þing og stjórn verði veitt aðhald að þeim kostnaði með því að gera þá kröfu til fyrirtækisins að það starfi við sömu skilyrði í samkeppni við aðra. Reyndar tel ég að það sé í samkeppni því ríkisstofnanir geta leitað annað og þá er líka eðlilegt að það sitji við sama borð. Það er visst aðhald frá arðkröfu af því fé sem bundið er í rekstrinum.
    Í þriðja lagi vil ég benda á, eins og ég reyndar hef aðeins vikið að, að hér er ekki um einokunarfyrirtæki að ræða í krafti laga eða tilskipana frá ríkisvaldinu. Þegar svo háttar er það alveg rétt hjá hv. þm. að orka kann tvímælis hvort rétt sé að breyta rekstrinum og nærtækasta dæmið um það er sementsverksmiðjan á Akranesi. Þó orkar það eins og ég sagði tvímælis. Sumt mælir mjög með því að breyta þeim rekstri í hutafélagsform, einkum til þess --- og ég endurtek --- einkum til þess að auka ítök heimamanna, gera fyrirtækið tengdara sínum stað, sínu héraði og sinni byggð svo það þjóni betur þeim mönnum sem beinlínis þar starfa og fólkinu sem er í kringum það. Þetta er ekki einhlítt, ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Bendi eingöngu á í lok þessarar athugasemdar að um þetta mál tókst góð samstaða í hv. Nd. og einnig í hv. iðnn. þeirrar deildar.