Stjórn fiskveiða
Þriðjudaginn 02. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Því ber að fagna að hér sé komið fram frv. um stjórn fiskveiða sem gerir ráð fyrir allróttækri breytingu á þeirri fiskveiðistjórn sem hér hefur verið stuðst við á undanförnum árum, en sú fiskveiðistjórn er búin að vera lítið breytt frá því 1984, þ.e. það er komið á fimmta ár.
    Með þeirri stefnu sem þá var upp tekin, þ.e. kvótakerfinu, var almenningi og þingmönnum sagt að það skyldi í fyrsta lagi tekin upp stjórn á því hvernig afli skyldi sóttur í fiskistofnana okkar og með það að markmiði að fiskistofnarnir yrðu nýttir sem best. Í öðru lagi að með þeirri fiskveiðistjórn skyldi stefnt að auknum gæðum, bæði afla og þess sem úr honum væri unnið. Í þriðja lagi mundi kostnaður við það að sækja aflann minnka. Og í fjórða lagi að hagkvæmni mundi aukast mjög í sambandi við fiskiskipastólinn og sjálfsagt mundi það leiða til þess að fiskiskipastóllinn mundi minnka. Menn sæju það í hendi sér að það borgaði sig að vera með færri skip og skipuleggja aflasóknina betur.
    Því miður hefur fátt af því sem lofað var haustið 1983 og jafnan síðan þegar þessi mál hafa verið hér til umræðu á hv. Alþingi, framlenging kvótastefnunnar, fátt af því sem lofað var hefur komið fram.
    Við stöndum nú frammi fyrir því að vera jafnvel með minni fiskstofn í hafinu umhverfis landið heldur en við höfum nokkru sinni áður verið og þar á ég þó sérstaklega við þorskstofninn. Um það leyti sem farið var út í kvótastjórnunina var að vísu nokkur lægð, þorskstofninn tiltölulega lítill og rökin fyrir því að út í það var farið að stjórna með kvótanum voru einmitt þau að það þyrfti að beita harðri stjórnun til þess að tryggja það að fiskstofnarnir næðu því að vaxa upp og verða í svipaðri stærð og áður hefði verið.
    Því miður hefur þetta ekki orðið raunin og nú stöndum við frammi fyrir því að í ár fáum við ekki meiri þorskafla af Íslandsmiðum en svona rúm 300 þús. tonn í staðinn fyrir það að á tímabilinu 1950--1959 sóttum við meðaltalsafla 460 þús. tonn á ári, á árunum 1960--1969 390 þús. tonn, þ.e. tæp 400 þús. tonn á ári, á tímabilinu 1970--1979 384 þús. tonn og á tímabilinu 1980--1989 362 þús. tonn. En eins og ég sagði áðan megum við búast við því að í ár og á næstu árum verði aflinn í kringum 300 þús. tonn. Þetta er afrakstur þeirrar stefnu sem við höfum búið við á undanförnum árum.
    Það sem ég nefndi í sambandi við samanburðinn, að ég væri að tala um þorskafla sem við hefðum sótt, það er ekki rétt. Þetta er þorskafli sem sóttur var á Íslandsmið á árunum 1950--1988 sem ég nefndi hér.
    Þetta er sorgleg saga en svo virðist sem þeir sem halda um stjórnvölinn vilji ekki viðurkenna þessa staðreynd. Og það eru ýmsar sorgarsögur sem eru að gerast á miðunum kringum landið dag frá degi í tengslum við þessa stjórn. Ég skal segja hv. þm. eina. Hún er á þann hátt að skipstjórar við Breiðafjörð óskuðu eftir því við hæstv. sjútvrh. á síðasta ári að gefin væri út reglugerð um það að banna smærri

þorskanetamöskva við Breiðafjörð en 7 tommur. Þar hafði verið í nokkrum mæli á undanförnum árum notaður 6 tommu möskvi og menn voru óánægðir með það að verið væri að sækja svo smáan fisk í þorskanet. Hæstv. sjútvrh. varð við þessari ósk og á vetrarvertíðinni 1988 og á vetrarvertíðinni núna voru menn á Breiðafirði ekki með smærri möskva en 7 tommur. Og þeir Norðlendingar sem komu til okkar á vertíðina urðu að undirkasta sig því að skipta um net þegar þeir komu suður til okkar, það sem þeir höfðu áður ekki þurft að gera.
    Nú bregður svo við, sem oft vill koma fyrir, að afli minnkar og hann minnkaði á miðunum við Breiðafjörð upp úr miðjum apríl. Þá gripu Breiðfirðingar til þess ráðs að fara suður fyrir land og reyna að auka afla sinn með því að sækja afla á þau mið sem fréttir voru af að mikill afli væri að berast að landi af. Þegar veiðiskipin frá Breiðafirði voru komin á þær slóðir að þeir fóru að spekúlera í því hvar þeir skyldu leggja trossurnar sínar og fóru að hafa samband við skipstjóra fyrir sunnan land, þá var það með fyrstu spurningum sem þeir Sunnlendingar báru fram við Breiðfirðinga: Eruð þið að koma með sjötommuna ykkar hingað suður fyrir land? Það þýðir ekkert fyrir ykkur. Skipstjórar að vestan voru nokkuð hissa. Var nú komið svo að á Suðurlandsmiðum var ekki annar möskvi boðlegur en 6 tommu möskvi í þorskanetum? Þeir vildu reyndar ekki trúa þessu og létu slag standa að leggja netin með 7 tommu möskvana í djúpkantana suður og austur af Vestmannaeyjum þar sem Suðurlandsbátar höfðu verið að moka upp afla. Og viti menn. Það var sáralítill afli í net þeirra Breiðfirðinga. En hinir öfluðu drjúgan.
    Það er komið svo sem sagt að meginveiðistofninn við Suðvesturland og Suðurland er orðinn það smár að hann veiðist ekki nema í 6 tommu möskva. Hvað er verið að gera með þessu? Það er verið að koma í veg fyrir það að það vaxi upp hrygningarstofn við landið. Fiskur, sem er svo smár að hann veiðist eingöngu í 6 tommu riðil, er það ungur að hann er ekki orðinn kynþroska.
    Og ég skal bæta við annarri sögu í sambandi við ástandið á þorskmiðunum okkar hér í kringum landið. Hún er á þann hátt að þorskaflinn sem borist hefur
að landi við Breiðafjörð í vetur er að *y2/3*y hluta geldfiskur. Við skulum nú ekki fara að kenna kvótanum um það. Það væri svolítið illa gert að gera það. Og ég ætla ekki að gera það. En það hlýtur að vekja þó nokkuð margar spurningar. Af hverju gerist það að *y2/3*y hlutar þess þorsks, sem að landi berst, er geldur? Það eru hvorki í honum svil eða hrogn. Það er eitthvað sérstakt að ske. Við vitum um hlutann að *y1/3*y en við vitum ekki um hlutann að öðrum *y1/3*y. Sem sagt: *y1/3*y er með svilum eða hrognum, *y1/3*y er trúlega of smár og ungur fiskur, en *y1/3*y er geldur. Þetta hlýtur að vera spurning sem við leggjum fyrir sjútvrh. og aðra ráðamenn í fiskveiðimálum að þessi þáttur sé kannaður. Getur verið að hér sé að eiga sér stað einhver mjög alvarleg þróun í sambandi við þorskstofninn okkar? Við ráðum

við það að við séum ekki að sækja mikið af ókynþroska fiski. Ég tel að við ráðum mjög vel við það í sambandi við þorskanetin með því að ákveða að þar skuli ekki vera sótt við Suður- og Vesturland í smærri möskva en sjö tommu og helst ekki nema sjö og hálfan eða sjö og kvart. En við ráðum vitaskuld ekki við það að ef einhver þau ósköp eru að gerast í hafinu að stór hluti af þeim fiski sem ætti að vera með hrogn og svil er það ekki. Það eru alvarlegir hlutir.
    Annar þátturinn sem nefndur var var að það mundi greinilega koma fram með hinni nýju fiskveiðistefnu að gæði afla mundu aukast. Menn mundu stefna að því að bæta meðferð aflans í landi og auka nýtingu hans svo sem kostur væri. Það var sem sagt hvatning frá ráðamönnum og þeim sem börðust fyrir þessari fiskveiðistefnu að slíkt yrði gert. Því miður hefur þróunin almennt ekki orðið á þennan veg. Það hefur ekki átt sér stað nein veruleg breyting á meðferð afla um borð í veiðiskipum nema síður sé undir sumum kringumstæðum, að undanteknu því að nokkuð hefur aukist, m.a. fyrir forgöngu Breiðfirðinga, að afli sem áður var yfirleitt geymdur laus í vertíðarbátum og í bátaflotanum er nú settur í kör og landað í körum í fiskvinnslustöðvarnar. Vitaskuld hefur góð og mikil breyting átt sér stað þar. En hitt að skip séu úti á veiðum kannski átta, níu og tíu daga er því miður enn við lýði og það að menn láti þorskanet liggja í sjó yfir helgar er enn gert og hefur því miður ekki breyst. Netafjöldi í sjó er ekki minni en áður var og af því eru ýmsar sögur að um óhæfilega mikinn netafjölda sé að ræða. Þessi hlutur sem fullyrt var við setningu kvótalaganna að mundi koma af sjálfu sér hefur látið á sér standa.
    Í þriðja lagi var sagt að kostnaður við veiðarfæri og úthald mundi minnka. Við það að hafa takmarkaðan afla til að sækja mundu menn skipuleggja sóknina á allt annan og hagkvæmari hátt. Það er hægt að koma með ótalmörg dæmi um það að þetta hefur jafnvel farið frekar á hinn veginn, þ.e. að menn hafa lagt í ýmsan kostnað í kringum sóknina sem áður var alls ekki til staðar.
    Svo er það fjórða atriðið, að fiskveiðistefnan mundi leiða til þess að flotinn mundi minnka, það mundi leiða af sjálfu sér að menn færu ekki að stækka flotann án þess að hafa til þess auknar aflaheimildir. Því miður hefur sú ekki orðið raunin á. Ég er hér með fyrir framan mig súlurit úr Útvegi sem sýna það að á hverju áranna frá 1985 til 1987 bættist við fiskiskipaflotann. Ekki aðeins að fiskiskipaflotinn hafi stækkað í rúmlestatölu heldur hefur hann stækkað óbeint, þ.e. það að vélarafl hans, togkraftur, hefur aukist stórlega. Á þessu tímabili hefur einnig komið ný skipagerð í flotann, þ.e. verksmiðjuskipin. Ég er ekki hér með upplýsingar um hvað sá floti er orðinn stór en að mínu mati er hann orðinn ískyggilega stór. Sá floti er eins og gefur að skilja óháður fiskvinnslustöðvum í landi og nokkuð óháður um það hvernig hann fer með sinn afla. Það er t.d. algild regla hjá verksmiðjutogurunum að þeir kasti stórum

hluta af innvolsi og beinum, þ.e. hirði lítið annað en flökin, sem er náttúrlega óhæfa hin mesta.
    Því miður hefur enginn af þeim grundvallarþáttum, sem lágu til setningar þeirrar fiskveiðistefnu sem við höfum búum við, tekist sem skyldi. Það er vitaskuld mismunandi hvernig þarna hefur til tekist en meginhlutirnir hafa verið á þann veg sem ég hef hér nefnt. Og þó, það versta af þessu öllu er að aðalatriðið sem stefnt var að með fiskveiðistefnunni, þ.e. að tryggja uppvöxt, viðgang og eðlilega nýtingu þorskveiðistofnsins, hefur algjörlega mistekist. Eins og ég nefndi áðan þá stöndum við frammi fyrir því að í staðinn fyrir að geta sótt 400--450 þús. tonna afla í þorskstofninn okkar verði aflinn á næstu árum jafnvel ekki meiri en um 300 þús. tonn eða þar fyrir neðan. Það mætti náttúrlega segja: Minna má nú gagn gera. Einhvern veginn er það þó þannig að þjóðin okkar blessuð vill ekki trúa þessu og ég hef líka tilfinningu fyrir því að þeir sem stjórna veiðunum og halda utan um fiskveiðistefnuna trúi ekki þessum ósköpum heldur. Þeir haldi áfram í vímu og svima á hinni sömu stefnu þó að þannig sé ástatt eins og raun ber vitni. Það er náttúrlega nöturleg staðreynd.
    Menn hafa sjálfsagt tekið eftir því á undanförnum vikum og jafnvel mánuðum að það hefur gerst æ tíðara að myndir hafi birst í blöðum af duglegum sjómönnum faðmandi þorska. ,,Þessi er nú 30 kg`` og þeir hafa jafnvel verið yfir 40 kg. Þetta er talið til stórtíðinda, að hægt sé að sýna einn og einn golþorsk veiddan við Íslandsstrendur. Ef þeir eru nokkuð margir í einu er
kallað út stórlið til að taka myndir. Það hefði engum orðið bilt við fyrir kvótatíð þó að við hefðum séð nokkra 30--40 kg þorska. Nú er svo komið að mönnum hefur orðið bilt við ef þessar skepnur sjást og eru fluttar að landi. Á meðan Sunnlendingar sækja fiskinn sinn með sex tommu riðli í suðurkantana hér við land birtast fréttir lon og don í fjölmiðlum um að nú sé að berast að landi svo stór fiskur, ljómandi góður fiskur hér og ljómandi góður fiskur þar. Segi hver sem er þeim sem fer með sex tommu net og leggur í sjó að hann fái í nokkru magni stóran fisk. Það skal verða sagt öðrum en íslenskum sjómönnum og það verður að reyna að segja það öðrum en mér. Það er vitaskuld viðburður þegar dregin eru sex tommu net, og dálítið merkilegur viðburður, þegar 30 kg fiskurinn flækist með kannski fastur þar á tönnunum.
    Ég vil taka það fram að hv. 1. flm. þessa frv., Þorv. Garðar Kristjánsson, kom til mín og spurði hvort ég vildi ekki vera meðflm. að frv. Ég var svona með hugann við að gera það og meginhlutinn af því sem sagt er í grg. fellur að mínum skoðunum. Í þessu frv. eru hins vegar smápunktar sem ég treysti mér ekki til þess að standa að og taldi því ekki rétt að vera flm. frv.
    Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson sagði í framsöguræðu sinni að þetta frv. væri lagt fram til sýnis og til umræðu einmitt á þeim tíma sem verið er að undirbúa nýjar tillögur um fiskveiðistefnu á vegum

sjútvrn. Það fer mjög vel á því að slíkt frv. sem þetta komi inn í þá umræðu.
    Það sem ég taldi að ég gæti ekki fellt mig við í þessu frv. var fyrst og fremst það að mér finnst flm. vera að búa til nýjar kvótareglur. Með því að vera að hugsa um það að tengja kvótann og fiskiskipastólsstærðina saman og ákveða það að hverju skipi skuli vera markaður ákveðinn kvóti við byggingu, eða reyndar hvenær sem er, tel ég að verið sé að búa til nýjan kvóta. Því taldi ég mér ekki fært að styðja frv.
    Það er einnig ætlast til þess í frv. að stofnaður sé úreldingarsjóður fiskiskipa. Ég tel það algjörlega óþarft ef um kvóta og úthlutun á skip er að ræða því að í sjálfu sér skapast úreldingarsjóður við þann rétt sem skipunum er úthlutað með aflamarki, hvort sem það er í tengslum við stærð þeirra eða eins og nú er í sambandi við reynslu eða út frá sóknarmarki.
    Í 8. gr. frv. er einnig ótittur nokkur sem settur var í frv. sjútvrh. um fiskveiðistjórn um áramótin 1987--1988, þ.e. að útflytjendum, kaupendum afla og umboðsmönnum útflutnings skuli skylt að láta ráðuneytinu í té ,,ókeypis`` upplýsingar hverjar sem ráðuneytið óskar eftir. ( Gripið fram í: Án endurgjalds.) Ókeypis. Ráðuneytinu er þar með fenginn ákveðinn réttur til að ganga inn í hvaða fyrirtæki sem er og krefjast upplýsinga og hvers sem er af fyrirtækinu og fyrirtækið er skylt að láta ýmsan kostnað og ýmsa fyrirhöfn í té við ráðuneytið án þess að fá þar nokkuð fyrir. ( HBl: Það getur skipt hundruðum þúsunda.) Það er ekki mikill vandi að fara með það í hundruð þúsunda, virðulegi þm., og jafnvel milljónir ef ráðuneytið vinnur á þann veg sem það hefur gert í ýmsum tilfellum.
    Í 9. gr. er talað um samráðsnefnd. Gott er að hafa ýmsar samráðsnefndir en þegar þær eru skipaðar er vitaskuld nauðsynlegt að þær séu byggðar upp á þann hátt að innan þeirra geti komið fram sjónarmið sem flestra hagsmunaaðila. Fyrirmynd þessarar samráðsnefndar mun að einhverju leyti vera sótt í gildandi lög eða jafnvel sú sama, ég hef ekki borið það saman. Ég tek eftir því að í þessari samráðsnefnd sem ætluð er í frv. er enginn fulltrúi frá vinnslunni. Hér eru fyrst og fremst útvegsmenn, samtök útvegsmanna og sjómanna. Við hljótum þó að líta svo á að þegar verið er að ræða um jafnmikilsvert mál og stjórn fiskveiða séu fleiri en þessir aðilar sem eigi að vera í samráðsnefnd á þessum vettvangi.
    Svo kemur hin stóra 10. gr. þar sem lagt er til að ráðherra skuli setja nánari reglur varðandi framkvæmd laganna. Þetta er að verða sígild grein í öllum lögum án takmörkunar. Ég held að svona greinar ættu oftast nær a.m.k. að hafa einhvern takmörkunarþátt.
    Það væri freistandi að fjalla svolítið um hugsanlegar leiðir, aðrar en hér eru nefndar, í sambandi við stjórn fiskveiða. Ég held að það sé ekki rétt að eyða tíma deildarinnar í það núna. Ég á sem betur fer sæti í þeirri nefnd sem er að fjalla um framtíðarplanið og þó að nú hafi liðið nokkuð langur tími síðan fundur hefur verið í þeirri nefnd, eða í

þeirri undirnefnd þar sem ég á sæti, vænti ég þess að þegar léttast fer starf okkar á þingi verði farið að skoða þau mál betur.
    Ég þakka flm. fyrir að koma með þetta frv. inn á hv. Alþingi. Ég vænti þess að það veki nokkrar umræður um þessi mál, kannski fyrst og fremst umræður um það hvað sú fiskveiðistefna, sem við höfum búið við, hefur mistekist og hve mikil nauðsyn er á að við leitum leiða á sem breiðustum grundvelli. Ég vil jafnvel segja að betrumbæta þurfi núgildandi stefnu eða finna upp aðra sem kæmi í hennar stað og skilaði hlutverki sínu betur eða mikið betur á þann veg að við næðum að byggja upp fiskstofnana okkar, þorskveiðistofninn, auka gæði afla og afurða, minnka kostnað og nýta skipastólinn okkar hagkvæmar og betur en við höfum gert á undanförnum árum. Ég er ekki að tala um að það blasi
endilega við að við þurfum að fara að minnka fiskiskipaflotann okkar eitthvað, sjálfsagt þurfum við þó að breyta að einhverju leyti til uppbyggingu hans eða flokkaskiptingu. Það sýndi sig á vertíðinni í vetur að loðnuflotinn okkar mátti alls ekki vera minni en hann var til þess að ná því aflamarki sem ætlað var. Ég hef grun um að ef flotinn hefði verið stærri og aflinn hefði verið sóttur fyrr í stofninn hefði jafnvel aflakvótinn verið aukinn. Við náðum honum ekki alveg vegna þess að flotinn var alls ekki of stór, kannski of lítill.
    Þannig má sjálfsagt koma með dæmi úr öðrum þáttum í sambandi við flotann. Ég held að það sem leita þarf að séu allt aðrir hlutir en þeir sem tengdir eru núverandi fiskveiðistefnu og mest er rætt um, þ.e. að minnka flotann, fækka fiskvinnslustöðvum og annað eftir því. Við þurfum að leita annarra ráða og betri sem skila okkur öðrum afrakstri en sú fiskveiðistefna, sem við höfum búið við á undanförnum árum, hefur skilað.